Rigning, skúrir, væta (og hvassviðri)

Svona er úrkomuspáin á landinu klukkan 21 á morgun. Sum …
Svona er úrkomuspáin á landinu klukkan 21 á morgun. Sum sé, rigning og meiri rigning. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Rigning eða skúrir. Dálitlar skúrir. Rigning. Rigning. Væta. Þetta eru nokkur af þeim orðum sem Veðurstofan notar í textaspám sínum til að lýsa veðrinu á landinu næstu daga. Þá er líka von á hvassviðri og segir í viðvörunarorðum veðurfræðings: „Annað kvöld kemur svo önnur lægð að landinu og hvessir og fer að rigna sökum hennar, en aðfaranótt mánudags er útlit fyrir hvassviðri, og enn snarpari vindhviðum við fjöll, austantil og talsverðri rigningu með köflum á sunnanverðu landinu.“

Víða um land skein sólin samfellt í margar klukkustundir á miðvikudag, en alls óvíst er hvenær landsmenn geta næst átt von á slíkum glaðningi. Útlit er fyrir að lægðir gangi hver af annarri yfir landið á næstunni.

 Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur og hópstjóri veðurþjónustu á Veðurstofunni, sagði í Morgunblaðinu í gær að ekki væri útlit fyrir breytingar næstu viku til tíu daga.

Og spá helgarinnar ber það vissulega með sér. Næsta sólarhringinn er spáin þessi: „Suðaustan 5-13 m/s og rigning um landið sunnan- og vestanvert, en heldur hægari norðan- og austantil, þykknar upp og lítilsháttar rigning seint í dag, en suðvestan 3-8 og súld með köflum sunnan- og vestanlands með kvöldinu. Birtir til um tíma norðan- og austanlands á morgun, en áfram þungbúið sunnan- og vestanlands og lítilsháttar súld. Breytileg átt 5-13 seint á morgun og víða samfelld rigning. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast um landið norðaustanvert.“

Veðurvefur mbl.is.

Út næstu viku er svo spáin á þessa lund:

Á mánudag:
Suðvestan 8-15 m/s en vestan hvassviðri eða jafnvel stormur á stöku stað um austanvert landið fram að hádegi. Rigning eða skúrir, en úrkomulítið austanlands. Hiti 8 til 15 stig. 

Á þriðjudag:
Suðvestan 5-13 og dálitlar skúrir, en skýjað með köflum norðan- og austanlands. Hiti 8 til 16 stig að deginum, hlýjast austanlands. 

Á miðvikudag:
Suðlæg eða breytileg átt 5-10 m/s. Rigning suðaustantil, en annars úrkomulítið. Hiti 8 til 15 stig. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir sunnanátt, skýjað með köflum eða bjartviðri og hiti 10 til 18 stig, en vaxandi suðaustanátt með rigningu vestantil á landinu um kvöldið. 

Á föstudag:
Líkur á suðlægri átt með vætu víða um land, einkum um landið sunnanvert. Hiti 10 til 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert