Ansi kröpp lægð á leiðinni

Veðurstofan biður fólk á öllu austanverðu landinu að huga að …
Veðurstofan biður fólk á öllu austanverðu landinu að huga að garðhúsgögnum og öðrum lausamunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvassviðri eða stormur verður á öllu austanverðu landinu í nótt og fram eftir degi á morgun, mánudag. Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna þessa, en vindhraðinn verður 15-25 metrar á sekúndu og vindhviður geta orðið allt að 35 metrar á sekúndu.

Fólk ætti að gá að lausamunum á borð við garðhúsgögn, auk þess sem varhugavert er að ferðast á bílum sem taka á sig mikinn vind.

„Þetta er ansi kröpp lægð. Hún er bara að myndast núna fyrir sunnan okkur og er að dýpka nokkuð ört þegar hún kemur hérna yfir landið í nótt,“ segir Helga Ívarsdóttir, vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofunni í samtali við mbl.is.

„Á undan lægðinni er talsverð rigning, en í kjölfarið á lægðinni er ansi góður vindstrengur sem mun vera yfir öllu austanverðu landinu. Þetta er bara hvassviðri eða stormur og mjög hvassar vindhviður sem fylgja þessu og getur verið mjög varhugavert fyrir þá sem eru í opnum svæðum í tjöldum, svo fólk þarf bara að hafa varann á,“ segir Helga.

Veðurvefur mbl.is.

Hún segir alls ekkert ferðaveður vera fyrir þá sem eru á húsbílum eða með tengivagna fram eftir degi á morgun.

Hvassviðri eða stormur verður á öllu austanverðu landinu frá því …
Hvassviðri eða stormur verður á öllu austanverðu landinu frá því í nótt og fram eftir degi á morgun. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Það er þannig með þessar kröppu lægðir að það er oft aðeins óvíst nákvæmlega klukkan hvað eða hvar mestu strengirnir verða, en þetta er vestan- og suðvestanátt og hún steypist þarna niður af fjöllunum og það er austurströndin öll og á annesjum norðan til og jafnvel í Eyjafirðinum sem hún verður slæm,“ segir Helga. Einnig segir hún veðrið á austanverðu hálendinu verða mjög slæmt.

Veðrið skellur á nokkuð hratt í nótt, fyrst á Suðausturlandi en færist svo norður. Svo tekur það fram eftir degi á morgun að draga úr og eftir hádegið ætti veðrið að verða orðið mun skaplegra, en þó verður enn nokkuð stífur vindur, um 10-15 metrar á sekúndu.

Helga segir annars útlit fyrir áframhaldandi vætutíð á suðvesturhorni landsins næstu vikurnar.

„Við erum svolítið föst í þessu kerfi sem við erum í, að lægðirnar séu í rennu hérna hjá okkur. Því miður lítur út fyrir að við séum ekkert að fara að hætta því í bráð,“ segir Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert