Féll ofan af klettum við Arnarstapa

Maðurinn rann fram af klettum við Miðgjá á Arnarstapa.
Maðurinn rann fram af klettum við Miðgjá á Arnarstapa. mbl.is/RAX

Þrír menn komu erlendum ferðamanni sem rann ofan af klettum við Miðgjá á Arnarstapa til bjargar þar sem hann hélt dauðahaldi í klettana. Hann hafði þá verið nánast allur á kafi í köldum sjónum í nokkrar mínútur. „Þegar við komum að honum var bara höfuðið upp úr,“ segir Jóhannes S. Ólafsson, sjómaður og veitingamaður á Arnarstapa. Er mbl.is var að ræða við Jóhannes var þyrla Landhelgisgæslunnar að lenda á vettvangi. Þyrlan lenti svo við Landspítalann í Fossvogi klukkan rúmlega 14.

Miðgjá er vinsæll viðkomustaður ferðamanna á Snæfellsnesi en þar má líta einstakt náttúruundur; gat í berginu beint ofan í sjó.

Jóhannes Ólafsson rekur Fish & Chips-vagn á Arnarstapa ásamt eiginkonu …
Jóhannes Ólafsson rekur Fish & Chips-vagn á Arnarstapa ásamt eiginkonu sinni, Herdísi Þórðardóttur. Ljósmynd/Skessuhorn

Slysið varð um klukkan 13 í dag að því er mbl.is kemst næst. Ferðamaðurinn var við gjána ásamt fleira fólki er hann virðist hafa runnið fram af klettabrúninni. Jóhannes heyrði fljótt af slysinu þar sem hann var í störf í veitingavagni sínum við höfnina. Hann ætlaði að stökkva um borð í bát sinn og sigla á slysstað en þá var Geir Högnason, bóndi á Bjargi, tilbúinn með sinn bát og þeir fóru saman í honum við þriðja mann á vettvang. Jóhannes giskar á að það hafi tekið þá um fimmtán mínútur frá því slysið varð að komast að manninum. Hann segir líklegt að maðurinn hafi annaðhvort farið niður um gatið eða fram af klettunum og út í sjó.

Hékk utan í klettunum

„Blessunarlega vildi svo til að hann nær að hanga utan í klettunum og er þannig þegar við komum að honum,“ segir Jóhannes. „Þá næ ég að kasta til hans björgunarhring og við náðum að draga hann að bátnum og koma honum þar að stiga. En hann gat ekkert gert sjálfur, hann var alveg máttlaus. Hann var allur á kafi nema rétt rúmlega höfuðið upp úr. En við vorum þrír og náðum honum um borð.“

Geir bóndi á Bjargi var meðal þremenninganna sem komu manninum …
Geir bóndi á Bjargi var meðal þremenninganna sem komu manninum til bjargar. Hann átti smábátinn sem notaður var til verksins. mbl.is/Alfons

Jóhannes segir að maðurinn hafi verið orðinn kaldur á þessari stundu. Þá var hann eitthvað hruflaður. „Hann var með meðvitund en gat ekkert hreyft sig.“

Bátnum var svo siglt inn í höfnina þar sem maðurinn var hífður frá borði og þar tóku sjúkraflutningamenn, sem þá voru komnir á vettvang, við honum. 

Jóhannes segir að sem betur fer hafi ekkert brim verið við klettana. Því hafi verið hægt að sigla bátnum nokkuð nærri. „Þetta hefði gengið illa ef það hefði verið brim. Grjótið er líka heldur slétt á þessum stað og það er alveg þverhnípt niður og þess vegna gátum við siglt bátnum alveg að.“

Báturinn varð því ekki fyrir hnjaski. „Þetta eru vanir menn, vanir sjómenn,“ segir Jóhannes.

Jóhannes segir það hafa verið létti að sjá að maðurinn var með meðvitund. „Þetta var góð stund. Það er alltaf svoleiðis. Ef maður getur gert eitthvert góðverk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert