Ræddi um Hauk við ráðherra Tyrkja

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Nihat Zeybekci, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, funduðu …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Nihat Zeybekci, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, funduðu í morgun í Skagafirði. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Mannréttindi og mál Hauks Hilmarssonar voru rædd á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, og Nihat Zeybekci, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, í Skagafirði í morgun. Þá kom Guðlaugur á framfæri gagnrýni íslenskra stjórnvalda vegna hernaðaraðgerða Tyrkja í Sýrlandi og stöðu mannréttindamála í Tyrklandi. Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins.

Á fundi ráðherrana tók Guðlaugur Þór upp mál Hauks Hilmarssonar, sem talinn er hafa fallið í Afrin-héraði í Sýrlandi fyrr á árinu. Zeybekci tók vel í fyrirspurnir Guðlaugs Þórs að sögn utanríkisráðuneytisins, en sagðist ekki hafa neinar nýjar upplýsingar sem gætu varpað ljósi á afdrif Hauks. Hann hét því að tyrknesk stjórnvöld myndu áfram veita aðstoð sína við að upplýsa málið.

„Þetta var ágætur fundur og gott að fá tækifæri til að ræða þessi mál við Zeybekci. Ég hef þegar tekið upp mál Hauks Hilmarssonar við varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra Tyrklands og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa líka vakið máls á því við erlenda ráðamenn þar sem þess hefur verið kostur. Með komu tyrkneska ráðherrans hingað til lands gafst okkur enn eitt tækifærið til að knýja á um frekari upplýsingar og samstarf í þessu sorglega máli,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn. 

Eftir fund ráðherrana var uppfærður fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Tryklands undirritaður,en sumarfundur EFTA fer fram á Suðárkróki í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka