Hæð yfir Bretlandi ber ábyrgð á lægðum

Veðurstofa Íslands

Mikil hæð er yfir Bretlandseyjum, hún er aðal drifkraftur þess að lægðirnar eiga greiða leið yfir Ísland þessa dagana. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Það hlýnar heldur á landinu næstu daga en áfram er væta viðloðandi vesturströndina. Austantil má gera ráð fyrir bjartviðri og hlýindum í dag og þar sem vestanáttin er enn nokkuð ákveðin ætti hafgolan að halda sig til hlés, en hennar gætir frekar á morgun þegar hæðarhryggur nálgast landið. Þá rofar einnig til á vestanverðu landinu, og geta íbúar höfuðborgarsvæðisins jafnvel gert sér vonir um sólarglætu. 

Ekki er útlit fyrir miklar breytingar á veðurlagi um helgina, og því viðbúið að suðvestanáttir beri með sér úrkomu en jafnframt einhver hlýindi fram í næstu viku.

Veðurhorfur næstu daga

Suðvestlæg átt, 5-13 m/s og allvíða skúrir en bjartviðri á Norðausturlandi og Austfjörðum. Hægari suðlæg átt á morgun og víða bjart með köflum en áfram stöku skúrir við vesturströndina. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast austanlands.

Á miðvikudag:

Hæg suðlæg átt og yfirleitt bjartviðri um austanvert landið en skýjað og sums staðar dálítil súld vestantil. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast austanlands. 

Á fimmtudag:
Suðlæg átt, 3-8 m/s. Skýjað með köflum og þurrt fram eftir degi sunnan og vestantil en fer að rigna um síðdegis. Bjartviðri norðan og austanlands en líkur á þokubökkum við ströndina um kvöldið. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast í innsveitum norðaustanlands. 

Á föstudag:
Suðlæg átt 3-10 m/s og rigning með köflum, einkum um landið V-vert en bjartviðri austast. Hiti 8-12 stig vestanlands en allt að 21 stig á austanverðu landinu. 

Á laugardag:
Vestlæg átt og súld eða þokuloft vestantil en líkur á síðdegisskúrum með norðurströndinni. Hiti 10 til 16 stig. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með rigningu í flestum landshlutum. Hlýnandi veður í bili. 

Á mánudag:
Lítur út fyrir hæglætis veður víðast hvar, en heldur kólnandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert