Hjólar einn hringinn í fjórða sinn

Hópurinn sem var flautaður af stað í dag. Á morgun …
Hópurinn sem var flautaður af stað í dag. Á morgun fer stærsti hluti keppenda af stað, A- og B-flokkar. mbl.is/Andri Steinn

WOW Cyclothon-keppnin er farin af stað í flokki einstaklinga og sérstökum flokki Hjólakrafts. Fimm einstaklingar eru skráðir til leiks í einstaklingskeppninni, þar á meðal Elín V. Magnúsdóttir sem freistar þess að verða fyrsta konan til að klára hringinn í WOW Cyclothon og Eiríkur Ingi Jóhannsson sem er að fara hringinn í einstaklingskeppni WOW Cyclothon í fjórða sinn.

Fylgjast má með hjólreiðamönnunum í beinni hér

Skúli Mogensen bregður á leik með byssuna sem hann notaði …
Skúli Mogensen bregður á leik með byssuna sem hann notaði til að starta hjólreiðamönnunum. mbl.is/Andri Steinn

Skúli Mogensen skaut úr byssunni við rásmarkið klukkan þrjú síðdegis í dag hjá bílaumboðinu Öskju. A- og B-flokkar, þar sem langflestir keppendur eru skráðir til leiks verða síðan ræstir klukkan 17 og 18 á morgun.

Eiríkur Ingi sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að markmiðið sé sett á að slá brautarmetið í ár. „Ég ætlaði að slá það [brautarmetið] árið 2020 en ég fór fyrir slysni núna,“ segir Eiríkur. 

Segist hann hafa gert samning við öll börnin sín um að hjóla með þeim hringinn á tvífarahjóli þegar þau yrðu átján ára og stóð til að það yrði gert núna á átjánda aldursári elstu dóttur hans. „Hún guggnaði en lét mig vita með góðum fyrirvara,“ segir Eiríkur sem ákvað þá að fara einn síns liðs eins og svo oft áður.

Eiríkur Ingi sigraði einstaklingskeppni WOW Cyclothon 2016.
Eiríkur Ingi sigraði einstaklingskeppni WOW Cyclothon 2016. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiríkur hefur einnig tekið þátt í löngu móti á Írlandi sem hann langar að taka aftur þátt í núna í ágúst og lítur hann á WOW Cyclothon sem undirbúning fyrir það. Hann segir undirbúninginn hafa gengið ágætlega, en hann sé aðeins þyngri en oft áður, en á móti sé hann sterkari svo hann býst við að formið „núllist út“.

Eiríkur hefur alltaf klárað hringinn og aldrei gefist upp. Spurður hvort það hafi aldrei hvarflað að honum segir hann það helst hafa verið í annað skiptið sem hann tók þátt. „Í byrjun var ég þá eitthvað að hugsa af hverju ég væri að nenna þessu aftur,“ segir Eiríkur en hann harkaði af sér og kláraði.

„Maður hugsar þetta í köflum,“ segir Eiríkur spurður hvað fari í gegnum hausinn á honum þegar hann er farinn að þreytast. „Ná þessum stað og svo næsta. Þegar maður þekkir orðið brautina þetta vel er þetta öðruvísi.“

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, var tilbúinn í leik Íslands …
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, var tilbúinn í leik Íslands og Króatíu að starti loknu. mbl.is/Andri Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert