Vanmetur veður og ofmetur eigin getu

Skálinn við Drekagil
Skálinn við Drekagil mbl.is/Árni Sæberg

Björgunarsveitarfólk sinnti sjö útköllum í gær, þar á meðal þremur á Fimmvörðuhálsi. Jónas Guðmundsson, hjá Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg, segir að þrátt fyrir að ýmislegt sé gert til þess að upplýsa fólk um aðstæður þá vanmeti fólk oft veðrið og ofmetur eigin getu. 

„Veðrið kemur okkur Íslendingum stundum á óvart og hvað þá útlendingum. Annars þyrftum við aldrei að eltast við trampólín,“ segir Jónas.

Hann segir að eflaust geti bæði Landsbjörg og ferðaþjónustan gert betur í að fræða ferðafólk sem hingað kemur en til þess þurfi meira fjármagn svo hægt sé að efla þá starfsemi sem þegar er haldið úti, svo sem Safe Travel. 

Jónas Guðmundsson starfar sem verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Landsbjörg en …
Jónas Guðmundsson starfar sem verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Landsbjörg en hann er ferðamálafræðingur að mennt og sérhæfður í stýringu ferðamanna. mbl.is/RAX

„Ef meira fjármagn væri sett í það verkefni væri hægt að upplýsa fleiri og bæta upplýsingaþjónustu á þeim miðlum sem notaðir eru. Svo mætti beita ákveðinni stýringu á gönguleiðir og staði sem við gerum lítið af. Nú var opnað mjög snemma inn í Landmannalaugar. Hefði átt að opna Laugaveginn líka eða hefði átt að hafa hann lokaðan lengur?“ segir Jónas.

Hann bendir á fleiri leiðir. Svo sem mætti gera auknar kröfur til þeirra sem ganga Laugaveginn en líkt og alþekkt er erlendis þá þarf göngufólk að ræða við landverði áður en lagt er af stað í gönguferðir þar sem farið er yfir búnað með fólki og eins skilin eftir ferðaáætlun.

„Það er hægt að gera fullt af hlutum en þetta kostar allt peninga og vinnu. En það kostar líka peninga og vinnu að fara í útköll og hvað þá ef illa fer,“ segir Jónas.

Þessi mynd var tekin á tjaldstæðinu í Hrafntinnuskeri í síðustu …
Þessi mynd var tekin á tjaldstæðinu í Hrafntinnuskeri í síðustu viku. Af Facebook-síðu Save Travel

Ýmsar leiðir á hálendinu hafa opnað óvenjusnemma í ár og bendir Jónas á að hluti gönguleiðarinnar á milli Landmannalauga og Þórsmerkur (Laugavegurinn) sé undir snjó og þar hafi snjóað fyrir nokkrum dögum. Fólk verður fljótt örmagna að ganga tíu kílómetra í snjó enda er það allt annað en að ganga á hörðu undirlendi. Gera má ráð fyrir því að um tíu km af leiðinni sé enn undir snjó. Það er á fyrstu tveimur dagleiðunum frá Landmannalaugum.

„Þetta kemur kemur auðvitað saman, það er opnað óvenjusnemma, töluvert um snjó auk þess sem veðrið hefur verið hundleiðinlegt. Ef veðrið er leiðinlegt þá vanmetur fólk aðstæður. Við höfum séð það í gegnum tíðina,“ segir Jónas.

Hálendisvakt að störfum í Landmannalaugum sumarið 2017.
Hálendisvakt að störfum í Landmannalaugum sumarið 2017. Ljósmynd Arnar Gunnarsson

Á föstudaginn hefst hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar en henni er haldið úti þangað til í ágúst. Hálendisvaktin verður starfrækt fyrir norðan Vatnajökul (við Drekagil), á Sprengisandi  og á Fjallabaki.

Vaktin er oft annasöm og telur Jónas að björgunarsveitarfólk aðstoði um sex til sjö þúsund ferðamenn á þessum sex til átta vikum sem hálendisvaktin starfar. Flest eru atvikin minniháttar en alltaf nokkur hundruð sem eru stærri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert