„Fáheyrt frumhlaup skrifstofustjóra borgarstjórnar“

Marta Guðjónsdóttir er ósátt vð vinnubrögð skrifstofustjóra borgarstjórnar Reykjavíkurborgar og …
Marta Guðjónsdóttir er ósátt vð vinnubrögð skrifstofustjóra borgarstjórnar Reykjavíkurborgar og segir minnisblað skrifstofustjórans pólitískt. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta eru ólíðandi vinnubrögð og síst til þess fallinn að auka traust milli kjörinna fulltrúa og embættismanna,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um minnisblað Helgu Bjarkar Laxdal, skrifstofustjóra borgarstjórnar, í yfirlýsingu senda fjölmiðlum í dag. Þar segir Marta einnig að hún telji að með minnisblaðinu sé „ætlað að gera lítið úr tilteknum kjörnum fulltrúum.“

Helga Björk lýsti því í minnisblaði, dagsett 23. júní síðastliðinn, að brotin voru ákvæði sveitarstjórnarlaga og siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar þegar starfsmenn borgarinnar voru sakaðir um trúnaðarbrest á fundi borgarstjórnar 19. júní án þess að það hafi verið leiðrétt.

Í minnisblaði skrifstofustjórans er Marta ein nafngreind í sambandi við að ásaka starfsmenn borgarinnar um trúnaðarbrest. „Með því að skoða upptökur á vef Reykjavíkurborgar getur hver og einn fullvissað sig um þá staðreynd að ég ásaka aldrei starfsmenn Reykjavíkurborgar, hvorki einn né neinn í þessum efnum og nafngreini þá heldur ekki,“ segir hún við Morgunblaðið, sem kom út í dag.

Segir ekki kjörnum fulltrúum fyrir verkum

Í yfirlýsingunni ítrekar Marta það sem kemur fram í upptökum af borgarstjórnarfundi og skýrir mál sitt frekar. „Af gefnu tilefni beindi ég hins vegar fyrirspurn til kjörins fulltrúa á fundinum, Lífar Magneudóttur [borgarfulltrúa Vinstri grænna], um það hvar hún hefði fengið upplýsingar um tilnefningar pólitískra mótherja í ráð og nefndir og hvers vegna hún væri að flíka slíkum upplýsingum á fundinum, áður en þær yrðu opinberar með kjöri. Fátt varð um svör en Líf nefndi vettvang á borð við kaffihús og ganga Ráðhússins. Af þessum tjáskiptum spunnust nokkrar umræður meðal borgarfulltrúa, en þær breyta í engu þeirri staðreynd að ég ásakaði aldrei starfsmenn Reykjavíkurborgar um eitt né neitt,“ segir í yfirlýsingu Mörtu.

Um minnisblað Heldu Bjarkar segir í yfirlýsingunni að það sé „fáheyrt frumhlaup háttsetts embættismanns sem á um fram allt að gæta hlutleysis og vera ekki að skipta sér af pólitískum umræðum kjörinna fulltrúa. Borgarstjórnarfundir eru ekki mælskunámskeið þar sem skrifstofustjóri borgarstjórnar segir borgarfulltrúum fyrir verkum.“

En Helga Björk hafði gert það að tillögu sinni í umræddu minnisblaði að borgarfulltrúar yrðu sendir á námskeið "fyrir borgarfulltrúa þar sem sérstaklega er farið yfir muninn á opnum og lokuðum fundum, muninn á fundargögnum þeirra funda, hvaða gögn eru trúnaðarmerkt og hvers vegna ákvæði eru um það í samþykktum að fundargögn borgarstjórnar skuli vera aðgengileg öllum."

Umdeilanlegur birtingartími

Þá er skrifstofustjórinn gagnrýndur fyrir að „setja sig á stall ákæru- og úrskurðarvalds yfir kjörnum fulltrúum með pólitísku minnisblaði.“ Bendir Marta á að þrátt fyrir að skrifstofustjórinn telji að vegið sé að starfsheiðri hennar hafi hún ekki umboð né lagalegar heimildir til þess að senda frá sér minnisblað af þessum toga þar sem einnig koma fram alvarlegar rangfærslur, að sögn hennar.

Í minnisblaði skrifstofustjórans er sagt að „allar upplýsingar um nefndasetu hennar og annarra borgarfulltrúa verið aðgengilegar á vefnum í marga klukkutíma“ fyrir borgarstjórnarfundinn.

Marta vísar þessu á bug í yfirlýsingu sinni og segir að upplýsingar frá skrifstofu borgarstjórnar benda til þess að umræddar upplýsingar hafi ekki verið aðgengilegar á vef Reykjavíkurborgar fyrr en eftir að umræddur fundur hófst.

Trúnaðarmál varð að frétt

 „Það frumhlaup skrifstofustjórans að semja „minnisblað“ og fara þess á leit að það yrði tekið fyrir í forsætisnefnd Reykjavíkurborgar, hefur nú haft þær afleiðingar í för með sér að málinu var frestað á síðasta fundi nefndarinnar, mánudaginn 25.6. sl., en sama kvöld var þetta óafgreidda trúnaðarmál nefndarinnar orðið að ærumeiðandi „frétt“ um mig í fjölmiðli, þess efnis að ég hefði brotið trúnað gagnvart starfsmönnum Reykjavíkurborgar,“ segir Marta í yfirlýsingunni.

Að lokum segir hún „þetta eru ólíðandi vinnubrögð og síst til þess fallinn að auka traust milli kjörinna fulltrúa og embættismanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert