Beitti ofbeldi og ólögmætri nauðung

Maðurinn kom fram vilja sínum gagnvart konunni með því að …
Maðurinn kom fram vilja sínum gagnvart konunni með því að beita hana ofbeldi og nauðung. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann fyrir nauðgun sem átti sér stað í febrúar árið 2017. Manninum er gefið að sök að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við konu án samþykkis og vilja hennar með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.

Er ákærði sagður hafa komið aftan að konunni, slegið hana að minnsta kosti einu sinni í rassinn, káfað á kynfærum hennar innanklæða og brjóstum. Þá hafi hann girt niður um hana, hent henni niður á fjóra fætur, snúið henni á bakið, tekið hné hennar í sundur og komið fram vilja sínum. Lagðist hann meðal annars ofan á hana og hafði við hana samræði um leggöng þrátt fyrir ítrekaðar mótbárur og neitun af hennar hálfu. Konan hlaut við þetta marbletti og eymsli á kynfærum og innanverðu hné.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá gerir konan einnig einkaréttarkröfu á hendur ákærða um að honum verði gert að greiða henni þrjár milljónir króna í miskabætur auk vaxta. Málið verður flutt fyrir Héraðsdómi Suðurlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert