Dæmdur fyrir áreitni á árshátíð

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni í garð konu. Maðurinn var yfirmaður konunnar og rekstrarstjóri á vinnustaðnum og áttu brotin sér stað sumarið 2016 á árshátíð fyrirtækisins sem þau unnu hjá.

Hann var ákærður fyrir að hafa ítrekað káfað á konunni, klipið í rass og í eitt skipti fært hendur inn á maga hennar innanklæða. Þá viðhafði hann kynferðisleg ummæli um útlit konunnar, en í málflutningi hennar kom fram að hann hefði kallað yfir viðstadda að hún væri „ógeðslega hot“.

Ákærði neitaði sök en sagðist í eitt skipti hafa kitlað brotaþola á hliðunum, í gríni. Hann hafi þó strax hætt því er hann varð þess var að konunni líkaði það ekki.

Dómurinn taldi framburð konunnar stöðugan og trúverðugan auk þess sem hann hefði nokkra stoð í framburði vitna, sem þó voru flest ölvuð. Tveimur dögum eftir árshátíðina sendi maðurinn konunni smáskilaboð þar sem hann baðst afsökunar og sagði að framkoma sín á árshátíðinni hefði verið „viðbjóður“.

Segir í dómnum að þau skilaboð bendi til þess að hegðun hans hafi verið óviðeigandi og að hann hafi ekki gefið fullnægjandi skýringar á þessu orðalagi.

„Geðveikt hot“

Konan hringdi í kærasta sinn og bað hann að sækja sig á árshátíðina. Samskipti kærastans og mannsins eru rakin í dómnum en maðurinn mun hafa spurt kærastann hvort hann væri kærasti konunnar og í kjölfarið tjáð honum að hann væri „ógeðslega heppinn“ þar sem konan væri „geðveikt hot“ eða eitthvað í þá veruna.

Fram kemur að móðir konunnar hafi rætt við vinnuveitendur hennar sem hefðu lofað að skoða málið. Lausn þeirra hefði verið sú að færa konuna til í vinnu og stuttu síðar hefði hún hætt störfum á vinnustaðnum. Hún hefði átt erfitt með þessa reynslu og leitað til sálfræðings, þangað sem hún hafði áður leitað vegna þunglyndis og kvíða.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði var í yfirburðastöðu gagnvart brotaþola sem yfirmaður hennar auk þess sem mikill aldursmunur er á þeim.

Honum var gert að greiða konunni 500.000 krónur í miskabætur með vöxtum og málskostnað upp á tæpa eina og hálfa milljón króna.

Úr dómsal.
Úr dómsal. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert