Mikil gróska í skógrækt við Ólafsvík

Öflugur hópur að störfum við skógrækt. Frá vinstri, Elena frá …
Öflugur hópur að störfum við skógrækt. Frá vinstri, Elena frá Spáni, Jana frá Tékklandi, Gorka frá Spáni, Manuel frá Ítalíu, Monika frá Póllandi og Jón Ásgeir Jónsson. Sigurður Scheving og Vagn Ingólfsson sitja. mbl.is/Alfons

Stórátak hefur verið gert í gróðursetningu trjáplantna í landi Skógræktarfélags Ólafsvíkur, en síðasta sumar og það sem af er sumri hafa um 30.000 plöntur verið gróðursettar á svæði félagsins, en þriðjungur plantnanna er íslenskt birki.

Vagn Ingólfsson, formaður Skógræktarfélags Ólafsvíkur, fræddi fréttaritara Morgunblaðsins og mbl.is í Ólafsvík um starfsemina.

Vagn var staddur ásamt Sigurði Scheving í ræktunarreit félagsins ofan Ólafsvíkur er fréttaritara bar að garði. Þar var einnig að störfum vinnuhópur undir stjórn Jóns Ágeirs Jónssonar skógfræðings og starfsmanns Skógræktarfélags Íslands.

„Jón ásamt fimm erlendum starfsmönnum kom til okkar síðastliðið sumar og svo aftur núna í sumar til að útbúa göngustíga um skóginn og vegna ýmissa annarra verka sem til falla, til dæmis brúar- og tröppugerðar,“ segir Vagn.

„Skógræktarfélag Íslands útvegar okkur þetta starfsfólk, núna eru þau frá fjórum löndum,  Póllandi, Spáni, Tékklandi og Ítalíu. Sjálfboðaliðarnir koma í gegnum verkefni sem heitir European Volunteering Service (EVS) sem er undir stjórn Evrópusambandsins,“ segir Vagn og bætir við að innan EVS séu alls konar verkefni í gangi um alla Evrópu í styttri og lengri tíma.

Vagn segist þakklátur Skógræktarfélagi Íslands og Jóni Ásgeiri fyrir að útvega starfskraftana og segist mjög ánægður með þá vinnu sem unnin hefur verið undanfarin tvö sumur af þessum hópum sem hafa komið.

„Ég vil einnig leggja áherslu á að Snæfellsbær hefur styrkt okkur með þetta verkefni mjög myndarlega og á þakkir skilið,“ segir Vagn, en hann segir að unnið hafi verið að töluverðri stækkun á landi félagsins og vonast til þess að gengið verði frá því sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert