Ölfusárbrú við Selfoss lokuð í viku

Ölfusárbrúin við Selfoss.
Ölfusárbrúin við Selfoss.

Vegna viðgerða veður brúin yfir Ölfusá lokuð fyrir bílaumferð í viku um miðjan ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Gangbraut brúarinnar verður þó opin.

Byggð er beggja megin Ölfusár á Selfossi og þeir sem verða að ferðast með bíl á milli bæjarhluta þurfa því að taka á sig ansi langan krók.

Íbúar norðan við ána þurfa þannig að keyra upp í Hveragerði, þaðan langleiðina niður í Þorlákshöfn og beygja þar inn á Eyrarbakkaveg til þess að komast keyrandi inn í miðbæ Selfoss, en þessi rúntur er rétt rúmir fimmtíu kílómetrar.

Áætlað er að loka brúnni á miðnætti sunnudaginn 12. ágúst, opna aftur fyrir morgunumferð klukkan 6 mánudaginn 13. ágúst en loka svo klukkan 20 sama dag og yrði brúin þá lokuð í viku.

Nýtt brúargólf verður steypt um nóttina en steypan er nokkra sólarhringa að harðna og ekki búist við að hægt verði að opna brúna fyrr en mánudaginn 20. ágúst.

Hjáleið verður um Þrengsli (veg 39) og Óseyrarbrú á Eyrarbakkavegi (veg 34).

Skýringarmynd/Vegagerðin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert