Segja fágætan hval hafa verið veiddan

Dýraverndunarsamtökin Hard To Port, telja að hvalveiðiskips Hvals hf. hafi …
Dýraverndunarsamtökin Hard To Port, telja að hvalveiðiskips Hvals hf. hafi veitt sjaldgæfan blendingshval, afkvæmi steypireyðar og langreyðar. Ljósmynd/Hard To Port

Dýraverndunarsamtökin Hard To Port, sem mótmæla hvalveiðum við Íslandsstrendur, birtu mynd á Facebook-síðu samtakanna þar sem er velt upp þeirri spurningu hvort hvalveiðibátur á vegum Hvals hf. hafi veitt sjaldgæfan blendingshval, afkvæmi steypireyðar og langreyðar. Mynd af löndun hvalsins í Hvalfirði sem er tekin aðfaranótt sunnudags er birt með færslunni.

Blendingar eru afar líkir langreyðum ofan frá séð í sjónum en litarhaft þeirra á maganum er dekkra og segir í færslunni að hvalurinn beri þessi einkenni. Hópurinn hefur sett sig í samband við sérfræðinga sem munu aðstoða við að greina hverrar tegundar hvalurinn er.

Hval­veiðar hófust á ný eftir tveggja ára hlé og hafa 22 veiðst langreyðar frá því að veiðar hóf­ust 20. júní, að sögn Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals hf.

Starfsmaður á vegum Hafrannsóknastofnunar tekur líffræðileg sýni og mælingar úr hverjum hval sem er veiddur og staðfestir Gísli Arnór Víkingsson, sjávarlíffræðingur og hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, að stofnunin hafi fengið ábendingu að um blending geti verið að ræða.  

„Við fréttum strax af þessum skrýtna hval og samkvæmt okkar starfsmanni minnir þetta á blending sem við höfum fengið svolítið af að undanförnu sem er merkilegt fyrirbæri. Af myndum af dæma erum við einna helst á að svo sé en úr því verður ekki endanlega skorið með haustinu þegar við förum í DNA-greiningu,“ segir Gísli Arnór í samtali við mbl.is.

Ekki víst hvort sýnið verði rannsakað fyrr

DNA-sýni eru tekin af öllum veiddum hvölum sem er síðan rannsökuð á sama tíma að lokinni vertíð. Ekki hefur verið tekið ákvörðun hvort því verði flýtt sérstaklega að skoða sýni úr hvalnum sem talið er að sé blendingur. „En við munum auðvitað skoða þennan sérstaklega í haust með tilliti til þessa atriðis,“ segir Gísli Arnór.

Steypireiðar eru friðaðar en það sama gildir ekki um blendinga. Gísli segir því að ekkert kalli sérstaklega eftir því að rannsókn á sýninu verði flýtt. „Ef þetta er steypireiður sem er friðuð tegund væri það brot á reglum Alþjóðahvalveiðiráðsins en ef þetta er blendingur er ekki um brot á reglum að ræða. Blendingar hafa ekki sérstakt verndargildi í sjálfu sér.“  

Blendingar eru ekki friðaðir, líkt og steypireyðar, en Hafrannsóknastofnun er …
Blendingar eru ekki friðaðir, líkt og steypireyðar, en Hafrannsóknastofnun er með málið í skoðun. Ljósmynd/Hard To Port

Þingmönnum barst ábending

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að þingmönnum hafi borist ábending í morgun þess efnis að hvalurinn sem um ræðir sé steypireyður, ekki blendingur. Ábendingin er undirrituð af Paul Watson, stofnanda Sea Shepherd, sem berjast gegn hvalveiðum. 

Björn Leví segir að ábendingar eins og þessi hljóti að vera teknar alvarlegar og ef yfirvöld bregðist ekki við varði það ábyrgð. „Það ætti að vera mjög auðvelt að skoða þetta og afsanna þá þessar ásakanir ef þær eru ekki sannar,“ skrifar Björn Leví við færslu þar sem hann birtir ábendinguna frá Watson í heild sinni. 

 

Ekki náðist í Kristján Lofts­son­, for­stjóra Hvals hf., við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert