Gekk í skrokk á sambýliskonunni

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Dómari við Héraðsdóm Vestfjarða hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í hálfs árs fangelsi fyrir alvarlegt brot í nánu sambandi með því að hafa beitt sambýliskonu sína hrottalegu ofbeldi. Hann var jafnframt dæmdur fyrir þjófnað og hylmingu. Maðurinn neitaði að hafa gengið í skrokk á konunni og hún kvaðst ekki muna til þess að hafa verið beitt ofbeldi af hans hálfu. 

Samkvæmt ákærðu réðst maðurinn á sambýliskonu sína, stappaði og sparkaði ítrekað í andlit hennar og líkama, þar sem hún lá á göngustíg á Ísafirði, með þeim afleiðingum að hún fjölmarga áverka á líkama og andliti. 

Eins og áður sagði neitaði maðurinn að hafa ráðist á konuna. Þegar málið kom fyrir dóm var hann farinn af landi brott ásamt konunni en við skýrslutöku hjá lögreglu sagði hann að þau hafi verið að ganga heim úr matvöruverslun og hún verið frekar full og ýtt í hann. Hann hafi ýtt við henni svo hún hefði dottið. Hann hefði svo hjálpað henni á fætur. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa sparkað í hana. Að öðru leyti kvaðst hann ekki muna eftir atvikum en hún myndi mögulega betur eftir þessu.

Hún bar í skýrslu sinni hjá lögreglu, daginn eftir atvikið, að hún myndi ekki eftir þessum atvikum. Hún myndi ekki eftir að hafa dottið, hún myndi ekki neitt. Vitni að atvikinu höfðu hins vegar aðra sögu að segja.

„Hún hafi legið varnarlaus upp við girðingu og hann hafi séð árásarmanninn sparka allt að sjö sinnum í hana þar til hann náði að stöðva bifreið sína úti í kanti. Maðurinn hafi sparkaði í andlit stúlkunnar, síðu, brjóst, frá mjöðm og uppúr.

Vitnið kvaðst hafa farið úr bílnum og öskrað á manninn, sem þá hafi verið að stappa á konunni. Árásarmaðurinn hafi hætt og komið ógnandi á móti sér svo hann hafi bakkað frá, en ekki látið það stöðva sig vegna þess sem þarna fór fram. Árásarmaðurinn hafi þá farið en vitnið hringt til lögreglu og beðið hjá stúlkunni. Hún hafi verið mjög hrædd. Hann hafi reynt að tala við hana en ekki skilið hana. Hún hafi kveinkað sér undan verk í síðu og þá hafi hann séð roða á andliti hennar eins og eftir högg. Þá sagðist vitninu svo frá að þriðji maður hefði verið á staðnum en farið strax.

Áður en lögregla kom á staðinn hefði árásarmaðurinn snúið aftur á vettvang. Hann hefði gengið rösklega til stúlkunnar svo vitnið hafi hörfað frá, sér til varnar. Þau hafi talað saman og öskrað hvort á annað en svo fallist í faðma og gengið saman í burtu. Þegar lögreglu bar að garði benti vitnið á parið sem aðila málsins,“ er haft eftir vitni að líkamsárásinni í dómi héraðsdóms.

Niðurstaða læknisrannsóknar og lögreglu er á svipaða lund og er það sögn dómara hafið yfir allan vafa að maðurinn hafi beitt konuna ofbeldi. 

Jafnframt beri að líta til þess að konan hefur búið hjá manninum frá því hún kom til landsins, hún er tuttugu árum yngri en hann og honum algerlega háð um lífsviðurværi, auk þess sem verulegur og sjáanlegur munur er á líkamsburðum þeirra. Konan hefur ekki íslenska kennitölu, hefur ekki haft hér atvinnu, né átt rétt á bótum sér til framfærslu hér á landi. 

Í sama dómi voru teknar fyrir fleiri ákærur á hendur manninum. Má þar nefna hylmingu á heimili sínu á Ísafirði. Þjófnað á mat og drykk í matvöruverslun og bakaríi og á áfengi á veitingastað í sama bæ.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði  hefur hann í tvígang áður sætt viðurlögum vegna þjófnaðarbrota. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert