Ísland hýsir afvopnunarráðstefnu NATO

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur setið leiðtogafund NATO síðustu tvo daga.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur setið leiðtogafund NATO síðustu tvo daga. AFP

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur boðið fulltrúum ICAN, alþjóðlegra samtaka sem berjast fyrir eyðingu kjarnorkuvopna, að koma til Íslands í október þar sem Ísland mun hýsa afvopnunarráðstefnu NATO.

Katrín fundaði með fulltrúum ICAN á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel sem lauk í dag. Katrín sagði í samtali við mbl.is áður en fundurinn hófst að hún hygðist ætla að bjóða ICAN-samtökunum að sækja Ísland heim í tengslum við afvopnunarráðstefnuna. 

Fulltrúum ICAN verður boðið að taka þátt í hliðarviðburði á ráðstefnunni „enda er mjög mikilvægt að samtal eigi sér stað milli ríkja Atlantshafsbandalagsins og þeirra grasrótarsamtaka sem hafa staðið fremst í flokki í baráttunni fyrir afvopnun,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Samtökin fengu friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir ötula baráttu sína gegn kjarnorkuvopnum.

Katrín sagði í samtali við blaðamann mbl.is að fundi loknum að umræða um framlög til varnarmála hefði verið mest áberandi á fundinum. „Staðan er óbreytt, staðreyndir er auðvitað sú að aðildarríkin hafa verið að auka sín framlög og ákveðið var að ríkin myndu halda sér við þau plön sem liggja fyrir í þeim efnum. Niðurstaðan var sameiginleg um að halda fyrri stefnu í þessu máli,“ segir Katrín.

Boðað var til sérstaks fundar um fjármögnun varnarmála í dag en þar var rætt um þá ákvörðun sem tekin var í Wales 2014 að aðildarríkin stefni að því að 2% af vergri landsframleiðslu renni til varnarmála. „Þessi ákvörðun er enn í fullu gildi enda hafa öll ríki bandalagsins aukið framlög sín á þessu sviði,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert