Eldur í sumarbústað á Suðurlandi

Frá slökkvistörfum í nótt.
Frá slökkvistörfum í nótt. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Fjórir voru fluttir á sjúkrahús í nótt eftir að upp kom eldur í sumarbústað á Suðurlandi. Í tilkynningu frá Brunavörnum Árnessýslu segir að útkallið hafi borist slökkviliði rétt fyrir klukkan fimm í nótt.

Vel gekk að slökkva eldinn þegar komið var á vettvang þrátt fyrir mikinn bruna og er rannsókn á eldsupptökum í höndum lögreglu.

Í bústaðnum voru fjórar manneskjur sem vöknuðu við reykskynjara og komust þess vegna út af sjálfsdáðum þrátt fyrir mikinn reyk og hita. Fólkið var allt flutt á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun.

„Það er okkur ljóst og það verður aldrei of oft sagt að reykskynjarar og slökkvitæki geta bjargað mannslífum,“ segir í tilkynningu Brunavarna Árnessýslu.

Frá vettvangi brunans.
Frá vettvangi brunans. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert