Svæðið ekki merkt lokað á vef Vegagerðar

Ljót sár geta myndast eftir utanvegaakstur á hálendinu. Myndin er …
Ljót sár geta myndast eftir utanvegaakstur á hálendinu. Myndin er úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Leiðin á milli Kerlingarfjalla og Setursins undir Hofsjökli var ekki merkt lokuð á hálendiskorti Vegagerðarinnar þegar tveir ökumenn festu jeppa sína utan vegar á svæðinu á sunnudag. Um er að ræða svokallaðan „veg í náttúru Íslands“, sem heyrir ekki undir Vegagerðina, en Vegagerðin reynir þó ávallt að birta kort af svæðum þar sem akstursbann er í gildi hverju sinni á vefsíðu sinni.

Einar Pálsson, forstöðumaður hjá þjónustudeild Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að stofnunin líti á það sem samfélagslegt hlutverk sitt að útbúa þessi kort, sem upphaflega voru gerð í samstarfi við náttúruverndarráð, sem var lagt niður árið 2001.

Starfsfólki upplýsingaþjónustu Vegagerðarinnar er uppálagt að hafa samband við Umhverfisstofnun og kunnuga aðila á hálendinu er það útbýr hálendiskortin.

Kort sem var birt á vef Vegagerðarinnar 12. júlí síðastliðinn sýndi engar lokanir á þessu svæði, en nýtt hálendiskort, sem birt var á vefnum í gær, sýnir að akstur er bannaður á umfangsmiklu svæði sunnan Hofsjökuls.

„Upplýsingaþjónustan okkar sér um að gera þessi kort. Í þessu tilfelli höfðu þau samband við yfirverkstjóra um ástandið og eiga alltaf að gera þetta eftir bestu upplýsingum hverju sinni,“ segir Einar.

Stórt svæði sunnan Hofsjökuls hefur nú verið skyggt á hálendiskorti …
Stórt svæði sunnan Hofsjökuls hefur nú verið skyggt á hálendiskorti Vegagerðarinnar. Kort/Vegagerðin

„Við höfum litið á þetta sem samfélagslegt hlutverk okkar að reyna að veita sem bestar upplýsingar um hvernig ástandið er,“ segir Einar, en þetta gerir stofnunin þrátt fyrir að vegirnir á svæðinu heyri ekki undir Vegagerðina.

„Sérstaklega í tengslum við þessi svæði er okkar fólki uppálagt að hafa samband við Umhverfisstofnun og síðan höfum við nýtt okkur hann Pál Gíslason í Kerlingarfjöllum sem hefur mikla þekkingu á svæðinu þarna í kring,“ bætir Einar við.

Settu inn kortið í góðri trú

Hann segir að „því miður“ hafi hans fólk ekki leitað nógu vel þangað þegar verið var að útbúa hálendiskortið og að skyggðu svæðin, sem gefa til kynna að akstur sé bannaður, hafi verið umfangsminni en þau áttu að vera.

„Þau settu inn kortið í góðri trú um að þetta væri ekki svona blautt miðað við þann árstíma sem kominn er,“ segir Einar.

Páll Gíslason framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum, segir að þrátt fyrir að vegurinn hafi ekki verið merktur lokaður á vef Vegagerðarinnar hafi ferðamennirnir keyrt fram hjá lokunarmerkjum sem eru á staðnum.

Brotið, sem ökumenn bílanna greiddu samtals 400.000 krónur fyrir, fólst síðan í því að keyra út fyrir veginn, þar sem bílarnir tveir sátu síðan fastir.

„Við höfum lagt áherslu á það við Vegagerðina að opna þetta svæði ekki nema að höfðu samráði við okkur og við áttuðum okkur á því í gærmorgun að 12. júlí hafði kortinu verið breytt og þá hvarf þetta út, þessi lokun,“ segir Páll, sem benti Vegagerðinni á það í gær og kortið var lagfært samdægurs.

Handan Kerlingarfjalla eru vegir utan umráðasvæðis Vegagerðarinnar.
Handan Kerlingarfjalla eru vegir utan umráðasvæðis Vegagerðarinnar. Kort/Vegagerðin

Hann segist  þó ekki hafa neitt formlegt boðvald um lokun veganna þarna, en það er í raun nokkur óvissa um það boðvald á vegum til fjalla, þar sem eru margir ónúmeraðir vegir eða slóðar án veghaldara.

„Það er erfitt fyr­ir okk­ur og lög­reglu að hafa eft­ir­lit alls staðar. Við biðlum þess vegna til fólks og ferðamanna að vera vak­andi fyr­ir þessu og láta vita ef það verður vart við slík­an akst­ur eða skemmd­ar­verk,“ sagði Ólaf­ur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is 2. júlí síðastliðinn, en brot gegn akst­urs­banni varða sekt­um eða varðhaldi.

Reglugerð ætlað að skýra úr óvissu

Ný reglugerð um vegi í náttúru Íslands var birt snemma á þessu ári og hún sögð marka tímamót varðandi vegamál á miðhálendinu, þar sem lengi hafi ríkt óvissa um vegi og slóða sem eru ekki hluti þjóðvegakerfisins.

Með náttúruverndarlögum, sem tóku gildi síðla árs 2015, var komið á því fyrirkomulagi að sveitarstjórnir skuli taka saman skrá yfir vegi í náttúru Íslands, aðra en þjóðvegi, þegar þær ganga frá aðalskipulagi eða svæðisskipulagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert