Andlát: Áslaug Ragnars

Áslaug Ragnars.
Áslaug Ragnars.

Áslaug Ragnars, blaðamaður og rithöfundur, lést í gærmorgun eftir erfið veikindi, 75 ára að aldri. Áslaug fæddist í Reykjavík 23. apríl 1943. Hún var elst fimm systkina, góðum gáfum gædd og listhneigð. Foreldrar hennar voru frú Ólafía Þorgrímsdóttir fótaaðgerðafræðingur og Kjartan Ragnars, hæstaréttarlögmaður. og sendifulltrúi í utanríkisþjónustunni. Á unglingsárum ólst Áslaug því að töluverðu leyti upp erlendis og bar þess síðan merki sem heimskona.

Heimkomin hóf Áslaug ung störf á Morgunblaðinu og var blaðamaður hér um alllanga hríð. Þá gaf hún sig nokkuð að stjórnmálastörfum, var í forystu Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Reykjavík 1974-78.

Áslaug ritaði tvær skáldsögur, Haustviku og Sylvíu, sem hlutu góðar viðtökur. Hún annaðist einnig margvíslega þáttagerð fyrir útvarp og sjónvarp. Eftir hana liggja ýmis rit, þar á meðal vinsæl matreiðslubók, Maturinn hennar mömmu, um íslenskan heimilismat. Áslaug starfaði síðar fyrir ýmsa aðra fjölmiðla, svo sem Tímann og Dag, en hin síðari ár fékkst hún við ýmis ritstörf, þýðingar og útgáfu.

Hér á Morgunblaðinu kynntist hún Magnúsi Þórðarsyni, síðar upplýsingafulltrúa Atlantshafsbandalagsins. Þau gengu í hjónaband 1964 og eignuðust synina Andrés, blaðamann á Englandi, og Kjartan, fyrrverandi borgarfulltrúa, sem báðir voru blaðamenn Morgunblaðsins um nokkurt skeið. Þau Magnús skildu, en hún giftist tvisvar aftur, fyrst sr. Jóni Ísleifssyni og síðar dr. Aðalsteini heitnum Emilssyni lífefnafræðingi. Þau skildu einnig.

Morgunblaðið þakkar Áslaugu Ragnars fyrir samfylgdina, farsæl störf og vináttu, og sendir sonum hennar og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert