Kostnaður er áætlaður 55 milljarðar króna

Í svari heilbrigðisráðherra kemur fram að verklok við nýjan Landspítala …
Í svari heilbrigðisráðherra kemur fram að verklok við nýjan Landspítala séu áætluð 2025. Tölvumynd frá NLSH

Áætluð verklok vegna nýbyggingar Landspítalans við Hringbraut eru árið 2024 og heildarkostnaður er áætlaður tæpir 55 milljarðar króna, án virðisaukaskatts. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmanni Miðflokksins.

Anna Kolbrún spurði m.a.: „Hvenær eru áætluð verklok vegna nýbyggingar Landspítalans við Hringbraut? Hversu hár er áætlaður heildarkostnaður?“

Í svari heilbrigðisráðherra við ofangreindum spurningum segir: „Áætluð verklok nýbygginga við Hringbraut, þ.e. meðferðarkjarna, rannsóknarhúss, bílastæða-, tækni- og skrifstofuhúss, verða árið 2024.

Kostnaðaráætlanir Nýs Landspítala ohf. (NLSH ohf.) taka tillit til hönnunar- og framkvæmdakostnaðar nýbygginga meðferðarkjarna, rannsóknarhúss, bílastæða-, tækni- og skrifstofuhúss. Jafnframt taka þær tillit til hönnunar- og framkvæmdakostnaðar gatna, veitna, lóðar, tengiganga, tengibrúa, þyrlupalls, bílakjallara við Sóleyjartorg og tækni- og stoðkerfa húsa, en einnig til verkeftirlits og kostnaðar við verkefnisstjórn vegna verkþáttanna. Alls er áætlaður kostnaður við framangreind mannvirki 54.577 millj. kr. án vsk. miðað við 136,5 stiga byggingarvísitölu í janúar 2018.“

Anna Kolbrún spurði heilbrigðisráðherra einnig hver væri uppfærð áætlun um endurnýjun á gömlu húsnæði Landspítalans við Hringbraut og hversu langan tíma væri áætlað að sú endurbygging tæki.

Svar ráðherra er svohljóðandi: „Í tengslum við byggingu meðferðarkjarna og rannsóknarhúss er áformað að ráðast í endurnýjun á núverandi húsnæði spítalans við Hringbraut. Alls er áformað að nýta áfram um 55.000 m2. Jafnframt þarf að reisa nýjar stoðbyggingar á lóðinni, svo sem vörumiðstöð og flokkunarstöð, alls um 4.400 m2.

Ekki hefur verið lagt heildstætt mat á áætlaðan kostnað við endurbæturnar, en Landspítali hefur lagt fram bráðabirgðamat á áætluðum kostnaði og kostnaði við nauðsynlegar stoðbyggingar. Áætlunin hljóðar upp á um 15.300 millj. kr. á verðlagi í desember 2017. Ekki liggur fyrir tímaáætlun um framkvæmdirnar, en framkvæmdatíminn gæti orðið um fjögur til sex ár.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert