„Staðan er kolsvört“

Hljóðið í Katrínu Sif var þungt eftir fundinn.
Hljóðið í Katrínu Sif var þungt eftir fundinn. mbl.is/​Hari

„Það er ekkert á borðinu,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra. Fundi þeirra hjá ríkissáttasemjara lauk rétt í þessu. „Það verður ekki skrifað undir í dag og það hefur ekki verið boðað til nýs fundar.“

Katrín Sif segir ekkert nýtt hafa komið fram á fundinum. „Staðan er kolsvört. Það var rætt um möguleika á miðlunartillögu og á gerðardómi en ekkert lagt fram. Miðlunartillaga myndi aldrei fela í sér meira en samninginn sem ljósmæður hafa þegar fellt.“

„Það er ekkert að koma að borðinu sem verður til lausnar þessarar deilu, ekki í dag. Eins og gefur að skilja erum við gríðarlega vonsviknar sem fyrr.“

Yfirvinnubann hófst á miðnætti aðfaranótt miðvikudags og verður það áfram í gildi þar til samningar nást. Hljóðið í Katrínu Sif var þungt eftir fundinn.

„Næstu skref hjá okkur eru bara að halda áfram og halda í þá von að réttlætið nái að sigra að lokum. Við höfum ekkert í höndunum nema bið. Við leggjumst bara á bæn að ljósmóðurstéttin þurrkist ekki út hérna.“

Katrín Sif segir ljósmæður bíða tilbúnar með pennann í hendinni. „Við óskum eftir tækifæri til að halda áfram okkar góðu störfum, en við þurfum að sjálfsögðu að fá mannsæmandi laun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert