Tekist „ótrúlega vel“ þrátt fyrir rigningu

Vel miðar í þeim verkefnum sem Vegagerðin hefur haft á …
Vel miðar í þeim verkefnum sem Vegagerðin hefur haft á sínu borði í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar hjá Vegagerðinni, segir malbikunarverkefni sumarsins ganga vel þrátt fyrir vætutíð. Líkt og mbl.is greindi frá á dögunum hafa skilyrði til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu ekki verið með besta móti og því hafa stór verkefni setið nokkuð á hakanum það sem af er sumri. 

„Þó svo að rigningin hafi slegið öll met hér á suðvesturhorninu þá hefur okkur tekist ótrúlega vel að eiga við þessar krefjandi aðstæður,“ segir Óskar.

Tvær tegundir eru í umferð af slitlagi, annars vegar malbik sem þolir meiri umferð og er að mestu notað á höfuðborgarsvæðinu, og hins vegar klæðingar sem eru viðkvæmari fyrir rigningu og eru þær að mestu notaðar á landsbyggðinni.

Með beina línu við veðurfræðinga

Óskar Örn segist bjartsýnn á að þau verkefni sem liggi fyrir hjá Vegagerðinni nái að klárast á landinu öllu. „Okkur er að takast þetta þótt ótrúlegt megi virðast og erum langleiðina komnir með það sem við ætluðum að gera. Þeir sem eru með klæðingarnar úti á landi eru með beina línu við sérstaka veðurfræðinga og þeir fara með flokkana á þau svæði þar sem er tryggt veður. Okkur er því að takast þetta með útsjónarsemi og reynslu þrátt fyrir allt,“ segir Óskar og bendir á að það megi að mestu þakka að unnið hafi verið að vegaframkvæmdum á næturvöktum meðfram dagvöktum.

Þá segir Óskar Örn að hann búist ekki við því að stærri verkefni dragist yfir á næstu ár vegna slæms veðurfars í sumar. „Ég held að það sé ekki að færast neitt af ráði af stærri verkefnum milli ára. Við erum að ná okkar markmiðum þannig séð. Auðvitað vilja menn lengri þurrkatíð það sem eftir lifir sumars. Það eru áskoranir í veðrinu en ég er mjög ánægður með framvindu mála. Það eru greinilega reynsluboltar í þessum verkum og það sýnir sig í framvindu verkanna,“ segir Óskar Örn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert