Ljósmæður á hlaupum um allt land

Eyrún Eva Steinarsdóttir og Halldór Valur Leifsson úr Skagafirði með …
Eyrún Eva Steinarsdóttir og Halldór Valur Leifsson úr Skagafirði með nýfædda dóttur sína sem fæddist kl. 10.50 í morgun á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri og var um 15 merkur og 51 cm. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Áhrif kjarabaráttu ljósmæðra má nú sjá og finna á fæðingardeildum um land allt og segjast ljósmæður á öllum hornum landsins finna fyrir auknu álagi. Yfirvinnubann hefur nú staðið yfir í rúma þrjá sólarhringa og hefur meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans í Reykjavík verið lokað.

Var kölluð inn

„Það hefur bara gengið vel. Við reynum bara að taka á þessu eins og við getum,“ sagði Anna Björnsdóttir, deildarstjóri á kvennadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi, í samtali við Morgunblaðið í gær. Anna byrjaði í sumarfríi á fimmtudag en var kölluð inn á vakt í gær sökum anna. „Það var bara ein ljósmóðir á vakt. Hún þurfti að fara í keisara þannig að einhver þurfti að vera hjá konunni sem var í fæðingu,“ sagði Anna.

Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, hefur svipaða sögu að segja. „Það er aukið álag. Konur sem myndu annars fara suður eða norður eru síður að gera það.“ Hún segir þó starfsemina hingað til hafa gengið stórslysalaust fyrir sig, en síðasta fæðing fór þar fram í gærmorgun og er von á fleiri verðandi mæðrum á næstu dögum.

Ekki komist hjá yfirvinnu

Spurð hvort áhrifin hafi náð til fæðingardeildarinnar á Ísafirði segir Erla Rún Sigurjónsdóttir, ljósmóðir hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: „Já, að einhverju leyti gera þau það. Meðan ég er í burtu er bara önnur fyrir mig.“

Hún bætir einnig við:

„Undanþágunefnd gefur að svo miklu leyti undanþágur fyrir okkur. Það er ekki hægt að öllu jöfnu að reka deildina án yfirvinnu. Það er yfirvinna þar alla daga. Á meðan það er fæðing þá er hún kláruð.“

Halla Harðardóttir, ljósmóðir á Akureyri, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi enn vera nóg að gera en önnur ljósmóðir lýsti því þannig í gærmorgun að allt væri á hvolfi og helgin illa mönnuð. Deildin tók í gær við fjölda mæðra og sagði Halla eina tilvonandi móður nýkomna á deildina og a.m.k. aðra til viðbótar vera á leiðinni.

Aðspurð hvernig nóttin liti út sagði Halla: „Það er svo erfitt að segja. Þetta getur breyst eins og hendi sé veifað. Við höfum allavega nóg að gera eins og er. Við erum alveg með lágmarksmönnun.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert