Ró yfir fæðingardeildum

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aðeins hefur ein beiðni um undanþágu frá yfirvinnubanni ljósmæðra borist síðasta sólarhringinn. Þetta segir Unnur Berglind Friðriksdóttir, sem situr í undanþágunefndinni fyrir hönd ljósmæðra. Beiðnin kom eftir á vegna konu sem fór að blæða eftir fæðingu. „Í svona aðstæðum kemur ekki annað til greina en að ljósmóðir haldi áfram að vinna þótt það teljist yfirvinna,“ segir Unnur. Hún segist vona að ró sé yfir fæðingardeildum núna.

Halla Harðardóttir, ljósmóðir á Akureyri, segir í samtali við mbl.is að nóg hafi verið að gera á fæðingardeildinni á Akureyri í nótt. Tvö börn fæddust í nótt en ekki hefur þurft að sækja um undanþágur frá yfirvinnubanninu. Síðustu daga hefur verið flogið með nokkrar konur norður til að fæða vegna álags á Landspítala, en ekki hefur þurft að grípa til þess síðasta sólarhringinn.

Anna Sigrún Baldursdóttir.
Anna Sigrún Baldursdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ljósmæðradeilan var til umræðu í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, sagði þar að lög myndu ekki snúa þeim ljósmæðrum, sem hafa sagt upp störfum, aftur til starfa. Því væri mikilvægt að deilan væri leyst án lagasetningar. Undir þetta tók Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra en hún ítrekaði að lagasetning hefði ekki komið til tals innan ríkisstjórnarinnar.

Í hádegisfréttum RÚV gekkst Anna Sigrún við því að Landspítali hefði framið verkfallsbrot þegar ljósmóðir hefði verið skylduð til að vinna meira en heimilt er. Sagðist hún harma verkfallsbrotið en það hefði komið til í upphafi deilunnar þegar starfsfólk spítalans var enn að fóta sig og stafi af mismunandi túlkun ljósmæðra og spítalans á því hvernig framlag fólks í hlutastarfi er reiknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert