Ekki ráðlegt að spyrja Grikki til vegar

Magnús og Ragnheiður ásamt börnum sínum, Guðrúnu Elenu og Sigurði …
Magnús og Ragnheiður ásamt börnum sínum, Guðrúnu Elenu og Sigurði Mar, í Parthenon.

Hjónin Magnús A. Sigurðsson og Ragnheiður Valdimarsdóttir fóru nýverið til Grikklands ásamt börnum sínum, Guðrúnu Elenu og Sigurði Mar, og dvöldu þar í tæpan mánuð. Þangað hafa þau farið margoft enda segjast þau afar hrifin af landi og þjóð og upplifa eitthvað nýtt í hverri heimsókn. Faðir Magnúsar, Sigurður A. Magnússon, starfaði sem fararstjóri í Grikklandi um árabil og þar dvaldi Magnús ásamt fjölskyldunni þegar hann var barn.

„Pabbi var fararstjóri í Grikklandi á sumrin og var svo að skrifa á veturna. Við bjuggum í Vouliagmeni, úthverfi Aþenu, í eitt og hálft ár á unglingsárum. Ég fór svo í háskóla þarna úti í eitt ár þar sem ég lærði grísku,“ segir Magnús sem er fornleifafræðingur að mennt. 

Hvað er það við Grikkland sem heillar?

„Veðurfarið er náttúrlega yndislegt,“ segir Magnús. „En það sem heillar mig held ég mest eru Grikkirnir sjálfir. Þetta er svo einstaklega gestrisið fólk. Manni er alls staðar svo vel tekið. Og svo er auðvitað bara gaman að ferðast þarna um.“ „Og maður er alltaf að sjá nýja hluti,“ bætir Ragnheiður við. „Við höfum aldrei farið til Grikklands án þess að hafa séð eða upplifað eitthvað nýtt eða öðruvísi. Og möguleikarnir eru endalausir og hægt að finna eitthvað við allra hæfi. Gríski maturinn er náttúrlega alveg dásamlegur. Ferskleikinn er svo mikill og eins gæðin. Svo eru Grikkirnir bara svo einstakir,“ segir Ragnheiður.

 Fjölskyldan fór meðal annars til Delfí, sem Magnús segir að sé einn frægasti staðurinn í Grikklandi. „Delfí er geysilega fallegur staður þar sem var meðal annars véfrétt Appollo og hof hans. Þarna var fjárhirsla Aþenubúa á gullöld þeirra og þetta er mjög heilagur staður. Þetta er svona Þingvellir þeirra Grikkja en þarna koma heilu rúturnar fullar af fólki.“

Eigið þið ykkur uppáhalds stað í Grikklandi?

„Okkar uppáhaldssvæði er eiginlega Mani, sem er mjög fallegt svæði,“ segir Magnús. „Þar er til dæmis Stoupa, sem er nú frægust fyrir það að þar bjó hinn raunverulegi Zorba. Síðan er eitt mesta náttúruundur Grikkja þarna í Mani, einn frægasti hellir í Evrópu, sem heitir Diros.“ „Ef fólk fer til Suður-Grikklands, þá má það ekki láta þennan stað framhjá sér fara,“ bætir Ragnheiður við. „Það er siglt í gegnum hellana á bátum og þar má  sjá dropasteina og þetta er bara mögnuð upplifun. Sums staðar þarf maður að beygja sig niður af því að það er lágt til lofts en svo annars staðar eru þetta bara heilu hallirnar. Við Magnús erum mikið hellafólk og höfum farið í hella út um allan heim en þessi hellir stendur upp úr.“

Þau nefna líka Vouliagmeni vatn sem er vinsæl heilsulind. Í vatninu synda fiskar sem eru orðnir vel þekktir í svökölluðu fiski-spa, að sögn Ragnheiðar.

Þau Magnús og Ragnheiður segja gríska matinn afar ljúffengan og fjölbreyttan. „Það er auðvitað alls konar sem maður er ekki vanur að borða hérna heima. En grískur matur er dásamlegur. Við erum með einn vegan í fjölskyldunni og hann var ekki í neinum vandræðum. Alls staðar er mikið grænmeti, alls konar baunir og eitthvað sem er árstíðabundið. Og alltaf smakkar maður eitthvað nýtt sem maður hefur aldrei prófað áður.“ Og Ragnheiður mælir með að leita Grikkina uppi. „Þeir vita hvar er gott að borða og heimamenn gera auðvitað ákveðnar kröfur. Og svo er bara gaman að vera í kringum þá, það er svo mikil gleði alltaf.“ Við hvetjum fólk endilega til að fara á Grikklandsgaldur á Facebook, þar er hægt að finna mjög áhugaverða staði og upplýsingar!

Hvernig er að keyra í grískri umferð?

„Það er mjög þægilegt og auðvelt að keyra þarna þótt það sé kannski svolítið kaótískt í miðborg Aþenu. En það er ekkert mál annars, sérstaklega þegar þú ert kominn út á landsbyggðina,“ segir Magnús. Hann segir vegina góða og auðvelt að rata, en allt sé vel merkt. „Eina er að það er erfitt að spyrja Grikkina til vegar. Þeir segja nefnilega aldrei ég veit það ekki. Ef Grikkinn veit ekki hver leiðin er, þá býr hann bara eitthvað til og segir bara eitthvað. Þú getur lent í endalausri vitleysu, svo það er viss áhætta sem þú tekur ef þú spyrð Grikkja til vegar,“ segir Magnús og hlær.

Sem fyrr segir er Magnús menntaður fornleifafræðingur. Hann vann við bandarískan fornleifauppgröft við ströndina í Grikklandi í kringum 1990. Hann segir að upp hafi komið minjar allt frá nýsteinsöld og alveg upp til fjórtándu, fimmtándu aldar.

 Er Grikkland ekki draumur hvers fornleifafræðings?

„Jú. Í Grikklandi hefur auðvitað verið búseta í þúsundir ára og vandamálið er að það er eiginlega sama hvar þú stingur niður skóflu, þá kemur eitthvað upp,“ segir Magnús. „Og það er erfitt að stjórna því. Bændur til dæmis fleygja jafnvel fornminjum í stað þess að láta vita af fundinum því annars gætu þeir þurft að stoppa að yrkja jörðina í einhver ár þar til staðurinn er loks tekinn út.“

Nánar er rætt við hjónin í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Ragnheiður í Delfí þar sem meðal annars var véfrétt Appollo …
Ragnheiður í Delfí þar sem meðal annars var véfrétt Appollo og hof hans.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert