Endurfundir Ellýjar og Vilhjálms

Will Lewis og Elín Thorarensen, Ellý.
Will Lewis og Elín Thorarensen, Ellý. mbl/Arnþór Birkisson

Þar sem blaðamaður hringir dyrabjöllunni á húsi í Garðabænum til að hitta þau Ellý og Vilhjálm hugsar hann með sér að þetta með nöfnin sé svolítið skemmtileg tilviljun og á þar við vegna systkinanna og söngvaranna Ellýjar og Vilhjálms heitinna, Vilhjálmsbarna. Ellý og Vilhjálmur sem hér um ræðir eru þó hvorki söngvarar né systkin og Vilhjálmur þessi heitir í raun William upp á enska tungu. Það leynist blaðamanni hins vegar ekki þegar hann sest niður með þeim á fallegu heimili Ellýjar, Elínar Thorarensen, að á milli þeirra ríkir djúp og einlæg vinátta. Þau gætu jafnvel hæglega verið systkin, þótt þau tali sitthvort móðurmálið. Þau segjast ekki hafa heyrt þessa tilvísun í Ellý og Vilhjálm Vilhjálmsbörn áður og hlæja dátt. Eins og þau eiga eftir að gera margoft á meðan á viðtalinu stendur.

Hélt fyrst að Ellý væri strákanafn

William Lewis, eða Will eins og hann er alltaf kallaður, er í sjöttu Íslandsheimsókn sinni. Hann er nýkominn aftur í bæinn eftir að hafa verið á ferðalagi um Austfirði. Will er búsettur í Seattle í Bandaríkjunum þar sem hann starfar hjá Microsoft, í gervigreindarteymi þýðingarvélarinnar Microsoft Translator. Ellý starfar sem verkefnastjóri hjá Verkiðn.

„Ég er líklega búinn að segja þessa sögu hundrað sinnum,“ segir Will og hlær þegar blaðamaður segist ætla að athuga hvort ekki sé örugglega kveikt á upptökutækinu áður en viðtalið byrjar, „en það er í góðu lagi að segja hana einu sinni enn. Kynni mín af Íslandi hófust þegar ég var tólf ára. Ég safnaði frímerkjum og átti íslensk frímerki, meðal annars með mynd af eldgosinu í Eyjum. Og ég vissi hvar Ísland var.“ Samband hans við Ísland hafi þó hafist þegar hann byrjaði að skrifast á við Ellý.

„Á þessum tíma var sjónvarpsþáttur í sýningu í Bandaríkjunum sem kallaðist The Big Blue Marble og var helgaður börnum,“ segir Will. Þátturinn, sem á íslensku gæti útlagst sem Stóra bláa kúlan, var sýndur í bandarísku sjónvarpi á árunum 1974-1983 og fjallaði um börn í Bandaríkjunum og annars staðar í heiminum. Börnum stóð til boða að senda póstkort til þáttarins og þeim var svo komið í samband við börn í öðru landi.

„Ég sendi inn kort og nokkrum vikum síðar fékk ég kort til baka þar sem á stóð nafn Elínar Thorarensen á Íslandi. Þetta var árið 1976 og við höfum skrifast á síðan. Það kom þó tveggja ára tímabil, sem hún er enn reið út í mig fyrir, þar sem hún skrifaði mér en ég skrifaði ekki til baka. Ég var bara unglingur í mótþróa,“ segir Will og þau Ellý skellihlæja að minningunni.

Will og Ellý þegar þau hittust fyrst árið 1986.
Will og Ellý þegar þau hittust fyrst árið 1986.

„En svo skrifaði ég henni loksins eftir þetta langa hlé og var þjakaður af samviskubiti þannig að mér fannst ég verða að bæta henni þetta upp,“ segir Will. „Þetta var bók,“ bætir Ellý við og hlær. „Já, ég skrifaði henni heila bók um líf mitt,“ segir Will. Ellý hafi að lokum gefist upp á að skrifa honum, en þegar hann tók upp þráðinn að nýju hafi hún þó svarað honum og sagt að hún hafi verið að velta fyrir sér hvað hefði eiginlega orðið um hann. Það hafi ekkert komið upp á, hann hafi bara verið vitlaus unglingur. En þetta kom greinilega ekki að sök og vináttan stóðst þetta hlé.

„Mamma hans Wills hefur sagt mér að hann hafi í fyrstu haldið að ég væri strákur, og þótt hana hafi grunað að Ellý væri stelpunafn þá hafi hún ákveðið að segja syni sínum ekki frá því, þá hefði hann kannski hætt við,“ segir Ellý. „Svo kannski hefurðu loksins áttað þig á því þarna á unglingsárunum og ekki viljað skrifast á við stelpu.“ Þau skellihlæja bæði en Will fullvissar hana um að hann hafi nú verið búinn að fatta það áður.

Margt framandi og öðruvísi

Samskipti milli heimsálfa taka ekki langan tíma í dag á tímum tæknialdar. Ekki eins og áður þegar það tók bréf jafnvel þrjár vikur að berast á milli landa í pósti.

„Ég man eftir því að hafa hlakkað til að fá bréfin, því Ísland var svo framandi,“ segir Will. „Það var öðruvísi en það sem ég átti að venjast. Eitt af því sem mér finnst svo skemmtilegt við þetta allt saman er að sjá þróunina sem varð á alls konar hlutum. “ Hann lítur á Ellý og segir hana hafa talað um hluti sem tíðkuðust ekki í Bandaríkjunum á þessum tíma. „Bara til dæmis þetta með myndbandsupptökutækin, manstu. Þið áttuð myndbandsupptökutæki og ég vissi ekki að svoleiðis væri til á þessum tíma, á áttunda áratugnum. En svo var það auðvitað líka hvað matinn varðaði; hvað þið voruð að borða, sem var augljóslega frábrugðið matnum sem ég þekkti.“

Ellý segir að sér hafi fundist gaman að heyra af lífi Wills. Og sér hafi þótt Kalifornía hljóma líkt og draumaland, „þar sem nær alltaf var sól og gott veður. Og Ameríka var svo langt í burtu og mjög öðruvísi en það sem ég átti að venjast.“ Hún segir að Will hafi stundum sent henni eitthvað framandi frá Bandaríkjunum, sem henni þótti nýstárlegt. „Einu sinni sendi hann mér poka af söltuðum sólblómafræjum. Ég hafði aldrei smakkað svoleiðis áður og átti pokann lengi vel því ég tímdi ekki að klára hann.“

Will heimsótti Ísland fyrst árið 1986 og segist muna vel eftir því þegar hann undirbjó fyrstu heimsókn sína til Íslands. Hann hafi byrjað á að fara til Evrópu, en þangað hafði hann þá bara komið einu sinni áður þegar hann fór til Bretlands ellefu ára, að heimsækja ættingja móður sinnar. „En þarna var ég alveg að verða tuttugu og þriggja ára og var á ferðalagi með vinum mínum sem voru í kórferðalagi.“ Þegar vinir hans héldu aftur til Bandaríkjanna fór Will til Íslands, þar sem hann dvaldi í þrjár vikur.

Og hittust þið þá í fyrsta sinn?

„Já,“ segja þau einum rómi. „Við höfðum talað nokkrum sinnum saman í síma,“ segir Will og lítur á Ellý. „Ég man að þú vildir það ekki, ég hafði nefnt það nokkrum sinnum að ég ætlaði að hringja en þú sagðir að þess þyrfti ekkert. En ég sagði að við yrðum að tala saman fyrr en síðar, við hefðum aldrei talað saman.“

Þau rifja upp fyrsta símtalið. „Pabbi hennar svaraði þegar ég hringdi, og ég spurði eftir Ellen því mér þótti það eðlilegast út frá enskum framburði. En pabbi hennar kannaðist ekki við neina Ellen. Þá spurði ég eftir Ellý og hann kallaði á hana,“ segir Will.

„Þú vissir að ég var í símanum,“ segir hann með ásökunartón við Ellý og þau skellihlæja bæði. Ellý segist hafa átt von á símtalinu, það hafi verið skipulagt. Og hún hafi verið stressuð. „Því ég var auðvitað ekki vön að tala ensku og ég var hrædd um að honum myndi finnast ég tala lélega ensku.“ Will segir að sér hafi fundist þetta flott, því Ellý hafi haft hreim sem hann hafði ekki heyrt áður. „Núna heyrir maður íslenskan hreim, í bíómyndum til dæmis. En á þessum tíma var íslenskan ekki svona þekkt og maður vissi ekki hvernig íslenskur hreimur hljómaði.“

No comment!

Sem fyrr segir er Will í sinni sjöttu heimsókn á Íslandi. Spurður hvað það sé við landið sem togi í hann segist hann finna meiri tengingu við landið með hverju skiptinu sem hann kemur.

„Mig langar bara meir og meir að koma hingað. Að vissu leyti hefur Ísland verið hálfgert athvarf fyrir mig. Þegar ég lít til baka og skoða söguna í kringum heimsóknir mínar til Íslands átta ég mig á því að oft hef ég komið hingað þegar eitthvað mikið hefur gengið á í lífi mínu; ég hef þá verið kominn hingað innan árs. Ekki alltaf en það á sérstaklega við um nokkrar heimsóknir hingað. Ég meina, heima er heima og maður er öruggur heima hjá sér. En hér finn ég fyrir öryggi og mér líður vel. Og þá á ég ekki bara við heimili Ellýjar, heldur Ísland sjálft.“

Will er mikill náttúruunnandi og kann vel að meta Ísland.
Will er mikill náttúruunnandi og kann vel að meta Ísland.

„Ísland er einstakt; það er svo undrafagurt hér,“ bætir hann við. „Ég myndi nú ekki skilgreina mig sem íslenskan en ég skil sambandið milli fólksins og náttúrunnar. Jafnvel í myrkrinu má sjá fegurð,“ segir Will.

Gætirðu hugsað þér að flytja til Íslands?

„Ég hef velt því fyrir mér,“ segir Will. „Ég held að veturnir yrðu erfiðir fyrir mig. Ég er bandarískur og mér þykir vænt um landið mitt, sérstaklega óbyggðirnar, og það væri erfitt fyrir mig að yfirgefa það. En ég get komið til Íslands og notið þess sem landið hefur upp á að bjóða. En ég útiloka ekki neitt.“

„Nú, þetta er eitthvað nýtt!“ segir Ellý. „Ég spurði þig einu sinni hvort þú myndir ekki vilja flytja hingað og þú sagðist ekki geta hugsað þér það.“ Will segir að það hafi margt breyst síðan þá og hann finni sífellt fyrir meiri tengingu við landið.

Þau skellihlæja bæði þegar blaðamaður spyr hvort Will hafi skipt um skoðun varðandi flutning til Íslands þegar nýr forseti tók við völdum í Bandaríkjunum. „No comment!“ segir Will og við látum þar við sitja.

Áhugi Microsoft á íslenskri tungu

Will hefur með árunum lært að skilja meira og meira í íslensku.

„Ég er tungumálamaður og elska tungumál. Íslenskan er mjög erfitt tungumál,“ segir Will. „Hann er fljótur að læra orð og setningar,“ segir Ellý. „Ég vona að ég verði búinn að ná tökum á að tala íslenskuna þokkalega, áður en ég dey,“ segir Will og hlær.

Will hafði rekið sitt eigið hugbúnaðarfyrirtæki fram á miðjan tíunda áratuginn, þegar hann ákvað að hefja nám að nýju. Hann lærði málvísindi og hefur lokið nokkrum háskólagráðum á því sviði. Síðustu árin hefur hann unnið hjá þýðingarteymi Microsoft í Bandaríkjunum en fram að því var hann prófessor við Washington-háskóla. Þar áður kenndi hann við háskóla í Kaliforníu.

Vinur Wills benti honum á starf hjá Microsoft sem hann sagðist hreinlega halda að hefði verið gert sérstaklega fyrir Will. Þótt svo hefði nú ekki verið raunin leist Will vel á starfslýsinguna en ákvað að halda sig áfram í kennsluumhverfinu í nokkur ár í viðbót. En svo kom að því að honum fannst tímabært að skipta um vettvang og líkar vel í starfi sínu hjá Microsoft. Hann hefur allan tímann unnið í þýðingarteyminu, þar sem meðal annars er unnið að því að gera tungumálaþýðingar sjálfvirkar.

„Og allan tímann sem ég hef unnið þarna hefur mig langað að fá íslenskuna í hóp þeirra rúmlega sextíu tungumála sem nú er að finna í kerfinu,“ segir Will. „Og einhver hefur verið að bögga þig með að klára dæmið,“ segir Ellý. „Á því leikur enginn vafi,“ segir Will og þau skellihlæja.

„Í hvert skipti sem ég kem hingað, eftir að ég byrjaði hjá Microsoft, fæ ég að heyra spurninguna um það hvar íslenskan sé. Ellý varð meira að segja bara reið stundum og spurði hvað ég væri eiginlega að gera þarna í vinnunni.“ „Stundum sendi ég honum setningar á íslensku og sagði að ef hann skildi þetta ekki, þá ætti hann bara að þýða þetta á Google Translate!“ Þau skellihlæja.

„Þetta er auðvitað ekki alveg undir mér komið,“ segir Will svo öllu alvarlegri, „því ég stjórna ekki teyminu. Vandamálið við íslenskuna er að Ísland er lítil þjóð og það þarf að sýna fram að á að það að taka íslenskuna inn hafi jákvæð áhrif á afkomuna. Og þar að auki tengist ég verkefninu persónulega, sem hefur sína ókosti fyrir mig. En að lokum fékkst þetta í gegn og íslenskan er komin inn. Það gerðist reyndar allt of seint en hún er þó komin í hópinn.“

Nánar er rætt við þau Ellý og Will í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert