Séra Kristján vígður til embættis í Skálholti

Gengið til kirkju. Frá upphafi vígsluathafnarinnar í Skálholti í dag.
Gengið til kirkju. Frá upphafi vígsluathafnarinnar í Skálholti í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Skálholtshátíð fór fram um helgina og var dagskráin fjölbreytt. Í dag fór fram biskupsvígsla, en þá vígði Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands séra Kristján Björnsson til embættis vígslubiskups í Skálholtsstifti við messu í Skálholtsdómkirkju.

„Það má segja að þetta séu tímamót í Skálholti þar sem Kristján kveður og Kristján heilsar,“ segir Agnes biskup, í frétt á vef Þjóðkirkjunnar. Séra Kristján Valur Ingólfsson hefur nú látið af embætti vígslubiskups, en hann hefur gegnt embættinu frá því árið 2011.

„Ég vil þakka Kristjáni Vali fyrir gott samstarf og góða þjónustu í kirkjunni, bæði í Skálholti og annarstaðar um áratuga skeið. Ég býð Kristján Björnsson velkominn til starfa og vænti góðs samstarfs,“ segir Agnes.

Séra Kristján Björnsson (t.v) við athöfnina í dag. Við hlið …
Séra Kristján Björnsson (t.v) við athöfnina í dag. Við hlið hans situr frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Árni Sæberg

Yndisskógur í Skálholti

Um helgina var undirritaður samningur kirkjunnar og Skógræktarfélags Íslands undirritaður, en samningurinn felur í sér að Skógræktarfélagið fái afnot af 2,3 ferkílómetra landi í Skálholti til 90 ára. Á vef kirkjunnar segir að landinu verði í framtíðinni breytt í yndisskóg með göngustígum sem fólk getur nýtt til útivistar.

„Þessi ákvörðun er í takt við umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar um að rækta landið og sporna við losun gróðurhúsalofttegunda, sem við gerum meðal annars með skógrækt. Við höfum einnig endurheimt votlendi á svæðinu með því að moka ofan í skurði. Þannig hefur kirkjan í Skálholti lagt sig fram um að varðveita jörðina og sköpunina,“ segir Agnes biskup.

Frá vígsluathöfninni í Skálholtsdómkirkju í dag.
Frá vígsluathöfninni í Skálholtsdómkirkju í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Nú síðdegis fer fram hátíðarsamkoma í Skálholtskirkju og þar flytja hátíðarræður þau Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri 100 ára afmælisnefndar um fullveldi Íslands 2018 og Dr. Ágúst Einarsson prófessor emeritus, fv. alþingismaður og rektor. Skálholtshátíð lýkur svo með kvöldbænum kl. 18.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert