Í sundi um miðja nótt

Sundlaug Kópavogs opnar klukkan 6:30 á morgnana en fólkið var …
Sundlaug Kópavogs opnar klukkan 6:30 á morgnana en fólkið var mætt ofan í upp úr klukkan 3 í nótt. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Lögreglan handtók mann á Grensásvegi um kvöldmatarleytið í gær en hann er grunaður um þjófnað. Hann fór jafnframt ekki að fyrirmælum lögreglu. Vegna ástands þjófsins var ákveðið að vista hann í fangageymslu í nótt.

Um svipað leyti var ökumaður handtekinn þar skammt frá en hann reyndist undir áhrifum fíkniefna, sviptur ökuréttindum og með fíkniefni í fórum sínum.

Á ellefta tímanum handtók lögreglan mann sem sýndi af sér ósæmilega hegðun og gistir hann nú fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann. Viðkomandi mun að öllum líkindum fá sekt fyrir.

Um klukkan 19 hafði lögreglan afskipti af manni sem var að berja í rúður í Vesturbænum. Lögreglan aðstoðaði viðkomandi við að komast heim.

Útlendingur var handtekinn klukkan 20:53 í Kópavogi eftir að í ljós kom að hann dvaldi ólöglega í landinu og hafði ekki heimild til að dvelja lengur á Schengen-svæðinu.

Einn gistir fangageymslur eftir að hafa verið handtekinn í gærkvöldi vegna gruns um fjársvik.

Brotist var inn í Holtahverfinu í Reykjavík í gærkvöldi og reynt var að brjótast inn í Hlíðahverfinu seint í gærkvöldi og eru málin í rannsókn lögreglu.

Lögreglan var kölluð að Kópavogslaug upp úr klukkan 3 í nótt þar sem fólk var mætt heldur snemma í laugina en hún opnar ekki fyrr en þremur tímum síðar. Var fólkið því rekið upp úr.

Tilkynnt var um skemmdarverk í Múlahverfinu í Reykjavík um eitt í nótt og er vitað hver var þar á ferð. Um eitt í nótt var tilkynnt um umferðaróhapp í Vogahverfinu en engin slys urðu á fólki. 

Gestir á tjaldstæðinu í Laugardal höfðu samband við lögreglu í nótt vegna hávaða og láta í vegfarendum á svæðinu og ekki svefnfriður fyrir gesti þar vegna látanna. 

Upp úr klukkan sex í morgun var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í Grafarvoginum en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort einhver hafi verið handtekinn vegna málsins.

Tveir voru handteknir í Furugrund í Kópavogi á kvöld og næturvaktinni vegna ölvunar og neyslu fíkniefna. Annar þeirra gistir fangageymslur. 

Klukkan 19:36 stöðvaði lögreglan för ökumanns vegna gruns um ölvun við akstur. Reyndist ökumaðurinn vera sviptur ökuréttindum og bifreiðin var jafnframt  á nagladekkjum.

Klukkan 18:50 var ökumaður handtekinn vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Jafnframt kom í ljós að viðkomandi var sviptur ökuréttindum en hann virti ekki stöðvunarskyldu og ók á ótryggðu ökutæki.

Klukkan 22:55  handtók lögreglan ökumann í Hamraborg vegna aksturs undir áhrifum fíkniefni og fyrir að vera sviptur ökuréttindum.

Klukkan 23:10 var ökumaður handtekinn í Álfabakka vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna, vera sviptur ökuréttindum og að hafa ekki virt stöðvunarskyldu.

Klukkan 23:40 var ökumaður handtekinn á Reykjanesbraut í Hafnarfirði vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna og án þess að hafa öðlast ökuréttindi.

Klukkan 00:56 handtók lögreglan ökumann á Bústaðavegi vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.

Klukkan 02:50 var ökumaður handtekinn í Álfheimum grunaður um fíkniefna- og lyfjaakstur. Jafnframt reyndist ökumaður sviptur ökuréttindum.

Um tíu í gærkvöldi var síðan tilkynnt til lögreglu um skemmdir á bifreið á Háteigsvegi en rúður voru brotnar í henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert