Spá allt að 22 stiga hita í dag

Veðurspá á landinu á hádegi í dag, föstudag.
Veðurspá á landinu á hádegi í dag, föstudag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Í dag er spáð austlægri eða breytilegri átt og dálítilli rigningu um vestanvert landið í fyrstu, en það styttir upp og birtir til síðdegis. Skýjað verður með köflum og úrkomulítið á Suðausturlandi en þurrt og bjart norðaustan til. Hiti verður víða 12 til 17 stig að deginum en allt að 22 stigum norðaustanlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands kemur fram að langt suður í hafi sé 994 mb lægð á leið til austurs en í nótt fer hún til norðvesturs. Það þykknar því upp og fer að rigna á morgun, fyrst suðaustan til, en þurrt verður á Vestfjörðum fram á kvöld. Hlýtt og rakt loft fylgir lægðinni og má búast við talsverðri rigningu um tíma um sunnanvert landið.

Útlit er fyrir að áframhaldandi austlægar áttir verði ríkjandi fram í miðja næstu viku með talsverðri rigningu á köflum, einkum á Suðausturlandi, en úrkomuminna norðvestan til.

Veðrið á hádegi á sunnudag samkvæmt spá Veðurstofunnar.
Veðrið á hádegi á sunnudag samkvæmt spá Veðurstofunnar. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veðurhorfur næstu daga eru þessar:

Á laugardag:
Hæg austlæg átt, skýjað með köflum en dálítil væta suðaustanlands. Gengur í austan 8-15 m/s síðdegis með rigningu, talsverðri á köflum, um sunnanvert landið en úrkomuminna norðan til. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast á Norðurlandi. 

Á sunnudag og mánudag:
Austlæg átt 8-15 m/s og rigning, en úrkomuminna norðvestan til. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast vestanlands. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Suðaustanátt og rigning um landið sunnan- og austanvert en úrkomulítið norðvestan til. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Norðurlandi vestra. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir vestlæga eða breytilega átt og rigningu eða súld norðanlands en yfirleitt þurrt sunnan til. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert