„Ég hélt að þetta væri búið“

Druslugangan var haldin í áttunda sinn í dag og þótti …
Druslugangan var haldin í áttunda sinn í dag og þótti Margréti það afar niðrandi og taktlaust að hópur manna nýtti gönguna til að steggja einn þeirra. mbl.is/Valli

„Að klæða hann í einhver grínföt og setja bleikt sprey í hárið á honum og láta hann svo gera lítið úr sér með því að vera í Druslugöngunni? Er það grínbúningur? Að vera þolandi kynferðisofbeldis?“ spyr Margrét Erla Maack um hóp manna sem nýttu Druslugönguna í dag til þess að steggja einn þeirra.

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, vakti athygli á mönnunum í Facebook-færslu sinni í dag þar sem meðal annars kemur fram að mennirnir hafi verið „fullir og flissandi með símana á lofti“. Þá kemur einnig fram að Sóley hafi látið mennina „fá það óþvegið“.

Hegðun mannanna eyðilagt daginn

Margrét Erla skrifaði ummæli við færslu Sóleyjar þar sem hún bæði þakkar henni fyrir að hafa talað við mennina og einnig að hegðun þeirra hafi eyðilagt daginn fyrir henni.

„Ég er þarna aftarlega í göngunni og það er maður sem er greinilega verið að steggja. Hann er með skilti sem stendur á „ég er ekki drusla“ og kallar það og æpir og í kringum hann eru svona fjórir, fimm flissandi strákar.

Þetta eyðilagði svolítið fyrir mér. Í þessari göngu erum við að standa saman með þolendum kynferðisofbeldis og ég hélt að þetta myndi ekki einu sinni koma til greina. Þetta minnir mig svolítið á þegar einhverjir fávitar voru að nota gleðigönguna til að steggja,“ segir Margrét í samtali við blaðamann mbl.is.

„Það voru líka einhverjir í hópnum að taka myndband af honum og maður hugsar bara „vá frábær stemning í brúðkaupsveislu,“ því það verður pottþétt einhver í veislunni sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi.“

Margrét segist hafa haldið að á þessum tímapunkti myndi svona ekki líðast. 

„Ég hélt bara að þetta væri búið. Ég er sjálf mikið að vinna í gæsa- og steggjapartýum að kenna dans og ég hef fundið mikið fyrir því síðustu ár að það er hætt, eða fannst manni, þetta eineltisgrín.“

Margrét Erla er meðal annars dansari og segist hún oft …
Margrét Erla er meðal annars dansari og segist hún oft kenna dansa í steggjapartýum. Ljósmynd/Leifur Wilberg

Þá segir Margrét að mennirnir hafi augljóslega ekki skilið tilganginn með göngunni og að hún hafi veitt þeim sem minnsta athygli því það hafi líklegast verið það sem þeir væru að sækjast eftir.

„Þeir vildu örugglega sjokka og vildu örugglega að einhverjir „reiðir femínistar“ kæmu að tala við þá.“

Að öðru leyti gekk gangan í dag vel og fylktu þúsundir sér saman í baráttunni gegn ofbeldi og til að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning.

„Greyið strákurinn bara,“ segir Margrét að lokum og bætir við að það sé ekki annað hægt en að vorkenna mönnum sem haga sér á þennan máta. „Og sem eiga svona vini, sem hugsa svona um kynferðisofbeldi. Og femínisma. Og réttindabaráttu. Og mannréttindi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert