Góður andi í fyrirrúmi á Bræðslunni

Ungir sem aldnir nutu helgarinnar saman í góðum anda á …
Ungir sem aldnir nutu helgarinnar saman í góðum anda á Bræðslunni. Ljósmynd/Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir

„Þetta gekk alveg rosalega vel. Við vorum í þessum töluðu orðum að klára að ganga frá restinni af sviðinu. Nú eru bara allir afskaplega kátir og glaðir og við vonum að allir hafi komist heilir heim,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, einn skipuleggjenda Bræðslunnar á Borgarfirði eystri, inntur eftir því hvernig hátíðin hafi farið fram um helgina. Hátíðinni lauk í dag.

Hann segir að þó svo að aðstandendur hátíðarinnar séu þreyttir sé gleðin ríkjandi eftir helgina. „Þeir sitja aðeins í manni þessir síðustu dagar en gleðin er svo miklu meiri en þreytan,“ segir Áskell. 

Daði Freyr tróð upp á Bræðslunni í gærkvöldi.
Daði Freyr tróð upp á Bræðslunni í gærkvöldi. Ljósmynd/Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir

Áskell segir að í kvöld sé botninn sleginn í hátíðina með Afréttaranum í félagsheimilinu á Borgarfirði eystri þar sem m.a. óskilamunum frá hátíðinni er safnað saman. Gestir klæða sig í óskilamunina sem eru svo auglýstir á Facebook í von um að réttur eigandi finnist. 

Veðurblíðan lék við gesti Bræðslunnar um helgina.
Veðurblíðan lék við gesti Bræðslunnar um helgina. Ljósmynd/Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir

Gott veður trekkti fólk að

Búist var við að um 1.500 manns myndu leggja leið sína á Borgarfjörð eystri yfir helgina í tengslum við hátíðina. Áskell segir að það hafi gengið eftir. „Meira að segja hugsa ég að þegar veðrið lék við okkur á lokametrunum hafi verið heldur fleiri ef eitthvað er. Ég gæti alveg trúað því að það hafi verið um 2.000 manns sem voru hérna á svæðinu í gær. Við erum alltaf með svona svipaðan fjölda, rétt undir þúsund manns, sem eru með miða inn á tónleikana en það er líka fullt af fólki sem nýtur þess að vera hér fyrir austan, á svæðinu, og draga í sig stemninguna.“

Bræðslan var nú haldin í 14. sinn en Áskell segir að ekki hafi verið mikil stefnubreyting á hátíðinni í ár frá fyrri árum. „Það eru kannski alltaf einhver sérkenni á hverju ári en að mestu leyti er þetta nú orðið nokkuð fast í forminu. Við erum fyrst og fremst, við bræður [Áskell og Magni Ásgeirssynir], að halda utan um þennan eina viðburð á laugardagskvöldinu, Bræðsluna sjálfa. Það verða til ýmsir hliðarviðburðir sem við höfum svo sem ekkert endilega mikið með að gera. Eins og til dæmis var Druslugangan gengin hér í fjórða sinn, það var fótboltaleikur og markaður og ýmislegt sem gekk á hér á laugardeginum áður en við opnuðum húsið hjá okkur.“

Alsælir tónleikagestir. Skipuleggjendur Bræðslunnar leggja áherslu á fjölbreytileika og að …
Alsælir tónleikagestir. Skipuleggjendur Bræðslunnar leggja áherslu á fjölbreytileika og að á hátíðinni finni allir eitthvað við sitt hæfi. Ljósmynd/Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir

Fyrir unga sem aldna

Skipuleggjendur Bræðslunnar leggja áherslu á fjölbreytileika í tónlist og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi á hátíðinni. „Okkur finnst skemmtilegast að blanda saman ólíkum tónlistarstefnum, nýju og eldra. Þannig að allir aldurshópar finni eitthvað við sitt hæfi, ég held að það hafi tekist mjög vel í ár,“ segir Áskell. 

Hann segir jafnframt að Bræðslan sé fyrir alla, unga sem aldna og að góður andi sé í fyrirrúmi á hátíðinni. „Það er það sem þessi hátíð byggir á, það er góður andi í gestum og góður andi í heimafólki sem hefur gaman af því að taka á móti þessum gestum. Þannig virkar þetta,“ segir Áskell að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert