Umferðartafir í miðbænum vegna byggingarframkvæmda

Vegna byggingaframkvæmda á Hafnartorgi hefur Geirsgatan aðeins verið ein akrein …
Vegna byggingaframkvæmda á Hafnartorgi hefur Geirsgatan aðeins verið ein akrein í austurátt. Gríðarlegar bílaraðir hafa oft myndast á svæðinu á álagstímum.

Miklar byggingarframkvæmdir standa yfir í miðborg Reykjavíkur, þær mestu í sögunni. Af þeim sökum hefur verið þrengt að bílaumferð á nokkrum stöðum og hafa myndast langar bílaraðir, sérstaklega á háannatímum. Jafnframt var hámarkshraði víða lækkaður í 30 km á klukkustund sem jók enn á tafirnar. Hefur þetta ástand óneitanlega valdið pirringi hjá ökumönnum.

Á næstu mánuðum mun ástandið lagast til muna.

Nýjasta þrengingin er á Lækjargötu, milli Skólabrúar og Vonarstrætis. Þar hefur tveimur akreinum verið lokað vegna framkvæmda við hótel á hornlóðinni þar sem Íslandsbanki var áður. Nú er bílaumferð aðeins um eina akrein í hvora átt á þessum kafla. Verktakinn, TVT ehf., hefur fengið útgefið leyfi til lokunar götunnar til loka maí 2019. Búast má við að afnotaheimildin verði framlengd því gert er ráð fyrir að umferð í Lækjargötu/Vonarstræti verði með þessum hætti, eða svipuðum, fram á sumar 2020.

Ný umferðarljós hafa verið sett upp á gatnamótum Lækjargötu og Vonarstrætis, vegna þessara framkvæmda.

Vestari hluti Lækjargötu hefur verið lokaður vegna byggingar nýs hótels, …
Vestari hluti Lækjargötu hefur verið lokaður vegna byggingar nýs hótels, þar sem Íslandsbankahúsið stóð áður. Gatan verður lokuð í tvö ár.

Vestari akbraut lokuð

Milli Skólabrúar og Vonarstrætis fer umferð nú eftir Lækjargötu um eystri akbraut þar sem vestari akbraut verður notuð undir gönguleið og vinnuaðstöðu verktaka. 

Einungis strætisvögnum verður heimilt að aka vestur Vonarstræti meðan á framkvæmdum stendur og þá aðeins ef þeir koma eftir Lækjargötu úr norðri (hægri beygja inn í Vonarstræti).

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Geirsgötu og gatnamót við Lækjargötu og Kalkofnsveg, en búið er að hleypa umferð á allar fjórar akreinar Kalkofnsvegar.

Aðeins ein akrein hefur verið í notkun á Geirsgötu til austurs. Af þeim sökum hafa myndast gríðarlangar bílaraðir á götunni á álagstímum. Hafa þær á stundum náð langleiðina að Ánanaustum. Gert er ráð fyrir að Geirsgata til austurs meðfram Hafnartorginu verði opnuð fyrir umferð um miðjan ágúst.

Þá verður Lækjargatan, milli Hverfisgötu og Geirsgötu, áfram ein akrein í hvora átt fram eftir hausti. 

Greinin í heild birtist í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert