Ferðir til Vestmannaeyja að seljast upp

Ferðir með Herjólfi til Eyja fyrir verslunarmannahelgi eru að seljast …
Ferðir með Herjólfi til Eyja fyrir verslunarmannahelgi eru að seljast upp. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ferðir með Herjólfi til Vestmannaeyja fyrir verslunarmannahelgina eru að seljast upp. Þá eru flugferðir til og frá Vestmannaeyjum dagana fyrir og eftir helgi að verða uppbókaðar. Það fer því hver að verða síðastur að tryggja sér farmiða til Eyja fyrir þjóðhátíð.

Siglingaáætlun Herjólfs er sú sama og fyrir þjóðhátíð í fyrra, segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, í samtali við mbl.is.

Herjólfur mun sigla sjö sinnum til Vestmannaeyja á fimmtudag og átta sinnum á föstudag. Á laugardag og sunnudag mun Herjólfur fara fimm ferðir til og frá eyjum. Uppselt er í Herjólf á föstudag en örfáir miðar eru eftir til eyja á fimmtudag.

Nánast uppselt í flest flug

Fyrir þjóðhátíð í fyrra veitti samgönguráðuneytið heimild fyrir því að nota ferjuna Akranes til að sigla milli Eyja og Landeyjahafnar. Ekki stendur til að gera slíkt hið sama í ár.

Ferjan Akranes er farin úr landi og því engin ferja í landinu sem uppfyllir kröfur um haffærni, segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is.

Enn er þó hægt að tryggja sér miða frá Landeyjum til Vestmannaeyja á föstudag með Ribsafari en fyrirtækið býður upp á bátsferðir á föstudeginum. Tólf manns komast í hverri ferð sem tekur rúmlega tíu mínútur.

Flugfélagið Ernir flýgur beint frá Reykjavík til Vestmannaeyja og þá flýgur flugfélagið Atlantsflug til Eyja frá Bakka. Samkvæmt upplýsingum frá flugfélögunum er nánast uppselt í flest flug til Eyja næstu daga.

Flugfélagið Ernir flýgur frá Reykjavík til Vestmannaeyja.
Flugfélagið Ernir flýgur frá Reykjavík til Vestmannaeyja. mynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert