Rigningin gert góða drullublöndu

Veðrið hefur gert góða drullublöndu í ár fyrir Mýrarboltann.
Veðrið hefur gert góða drullublöndu í ár fyrir Mýrarboltann. Ljósmynd/Sigurjón J. Sigurðsson

„Þetta er stanslaus skemmtun. Þú ferð út að skemmta þér á kvöldin og svo daginn eftir hefur þú bara ekki tíma til að vera þunnur og þreyttur heldur hleypur þú út í drulluna og ert orðinn blautur og kaldur og hressist við og hefur strax gaman fljótlega eftir að þú vaknar,“ segir Thelma Rut Jóhannsdóttir, talsmaður Mýrarboltans í Bolungarvík.

Mýrarboltinn verður haldinn í fimmtánda sinn um verslunarmannahelgina og er hvorki meira né minna en Evrópumeistaratitillinn í mýrarbolta í húfi. Auk keppninnar er svo skemmtileg dagskrá á kvöldin yfir helgina þar sem meðal annars Daði Freyr og JóiPé og Króli stíga á stokk.

Mýrarboltinn 2017.
Mýrarboltinn 2017. Ljósmynd/Sigurjón J. Sigurðsson

Thelma segist eiga von á 12-15 liðum sem er svipað og hefur verið undanfarin ár. Það sé þó misjafnt hve margir liðsmenn séu í hverju liði þó að einungis sex séu inni á vellinum hverju sinni.

„Þetta er mjög misjafnt. Það eru nokkur lið sem hafa verið með næstum því fjörutíu manns í liði. Það er t.d. fyrirtæki hérna í bænum þar sem þetta er bara eins og árshátíð og öll fjölskyldan kemur. Þetta er allt frá því að vera 6 í liði yfir í að vera 40 í sama liðinu,“ segir Thelma.

Þá hefur hópurinn alltaf verið fjölbreyttur og það er alls ekkert skilyrði að vera góður í fótbolta þó að margir kunni að halda það.

„Við höfum fengið virkilega skemmtilegan hóp af fólki. Þetta er fólk sem hefur gaman af að hreyfa sig og að skemmta sér. Þú þarft ekkert að vera góður í fótbolta til að vera góður í mýrarbolta. Það er það skemmtilega við þetta. Það er enginn með eitthvert tromp fram yfir þig.“

Tekist á í Mýrarboltanum 2017.
Tekist á í Mýrarboltanum 2017. Ljósmynd/Sigurjón J. Sigurðsson

Þrátt fyrir talsverða vætutíð í sumar hefur veðrið ekki haft nein áhrif á aðstæður. Þvert á móti ef eitthvað er. „Það hefur bara gert góða drullublöndu ef það er eitthvað. Við vorum með krakkamót í júlí þar sem við prufukeyrðum aðeins drulluna og hún kom virkilega vel út, meira að segja betur en í fyrra.“

Samkvæmt sérfræðingi Veðurstofu Íslands er von á ágætisveðri á svæðinu um helgina og þá sérstaklega á laugardaginn. Á föstudag og mánudag gæti orðið smávægileg úrkoma en það ætti þó ekki að hafa áhrif á keppendur þar sem dagskráin nær hápunkti á laugardag. Þar að auki ætti að vera hlýtt alla helgina.

Skráning í Mýrarboltann er enn í fullum gangi og fer fram hér.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert