Óttast hrun Eldvatnsbrúar

Flóðið árið 2015 skolaði undan eystri stöpli Eldvatnsbrúarinnar.
Flóðið árið 2015 skolaði undan eystri stöpli Eldvatnsbrúarinnar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vegagerðin verður með varúðarráðstafanir við Eldvatnsbrú við Ytri-Ása í Skaftafellssýslu vegna Skaftárhlaupsins sem er að hefjast. Brúin er illa farin og ef hlaupið verður stórt gæti hún hrunið, telur Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík. 

Í nótt urðu sérfræðingar Veðurstofu Íslands varir við hreyfingar í Eystri-Skaftárkatli í Vatnajökli sem benti til þess að hlaup væri að hefjast. Talið var að það tæki nokkra daga að ná hámarki en nýjustu fregnir gera ráð fyrir því því að Skaftárhlaup hefjist síðdegis á morgun og nái hámarki á laugardagskvöld, degi fyrr en talið var í fyrstu.

„Það hefur verið venjulegt vatnsmagn síðastliðin tvö ár og þá hefur lítið gerst. En brúin þolir ekki miklar hamfarir. Maður er smeykur við það [hrun brúarinnar] skulum við segja,“ segir Ágúst Freyr í samtali við mbl.is.

Eldvatnsbrú er mikið löskuð eftir Skaftárhlaupið árið 2015 sem var gríðarlega stórt. Þá gróf straumurinn það mikið undan stöpli brúarinnar að raunveruleg hætta var á hruni hennar. 

Vegagerðin bíður nú fregna frá Veðurstofu Íslands um það hversu mikið magn af vatni muni streyma niður ána. Það tekur vatnið um 1-3 sólarhringa að ferðast undir jökulinn og út í Skaftá. Eftir að vatnið kemur undan jöklinum tekur það um fimm klukkustundir að ná að fyrsta vatnsmælinum.

„Ef þetta verður í stærri kantinum þá förum við bara í vörn og reynum að vera tilbúnir til að loka. Í augnablikinu þá er þetta bara væntanleg og við vitum ekki neitt,“ segir Ágúst sem bíður frekari fregna frá Veðurstofu Íslands og almannavörnum.

„Ef þetta eru báðir katlarnir eins og gerðist síðast og þetta verður svipað magn sem kemur þá myndi telja að brúin sé í verulegri hættu,“ bætir Ágúst við.

Vegagerðin verður með lokunarbúnað reiðubúinn nálægt brúnni ef svo fer að um hamfarahlaup sé að ræða líkt og árið 2015. „Við lokum ekki nema þetta verði mikið. Þegar þetta kemur undan jökli sjáum við magnið. Við förum ekki að trufla umferð að óþörfu," bætir Ágúst við.

Ef hlaupið verður mikið gæti brúin verið í verulegri hættu.
Ef hlaupið verður mikið gæti brúin verið í verulegri hættu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert