Ók á 126 km hraða á Gullinbrú

mbl.is/Július

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði akstur bíls á Gullinbrú í Grafarvogi laust eftir miðnætti sem hafði mælst á 126 kílómetra hraða á klukkustund. Hámarkshraði á brúnni er 60 km/klst.

Ökumaðurinn er aðeins sautján ára og var hann færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Móðir hans var svo kölluð til og kom hún og sótti piltinn. Málið var tilkynnt til barnaverndar.

Klukkan 19 í gærkvöldi stöðvaði lögreglan för ökumanns á Suðurlandsvegi við Sandskeið en sá ók á 157 km/klst. Hann var í framhaldinu sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Lögreglan hafði afskipti af töluverðum hópi ökumanna í nótt sem grunaður er um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Klukkan 3 í nótt stöðvaði hún för ökumanns á Breiðholtsbraut sem er grunaður um akstur undir áhrifum sem og að aka ítrekað án ökuréttinda.

Um klukkan 19 í gærkvöldi hafði hún afskipti af ökumanni bíls á Bústaðavegi við Sprengisand sem er grunaður um akstur undir áhrifum bæði fíkniefna og áfengis. Farþegi í þeim bíl reyndist vera eftirlýstur vegna fullnustu dóms. Hann var handtekinn á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert