Alltaf ný hinseginmál

Regnbogamálun Hinsegin daga er orðinn fastur liður sem setningarathöfn hátíðarinnar. …
Regnbogamálun Hinsegin daga er orðinn fastur liður sem setningarathöfn hátíðarinnar. Þetta er í annað sinn sem Skólavörðustígurinn er málaður. Á myndinni má sjá Dag B. Eggertsson borgarstjóra fyrir miðju og á hans vinstri hönd Gunnlaug, formann Hinsegin daga. mbl.is/Valli

Hinsegin dagar í Reykjavík hófust formlega í gær þegar fáninn var málaður á Skólavörðustíginn. Hátíðin verður þó ekki sett fyrr en á morgun, þegar opnunarhátíð Hinsegin daga fer fram í Háskólabíói.

Allt hefur farið vel af stað, segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga í ár. „Það er bjartsýni og stemning í hópnum. Það kemur sérstakt andrúmsloft í borgina þegar Hinsegin dagar byrja,“ segir Gunnlaugur glaður í bragði í samtali við mbl.is.

Það er mikið um að vera. Fræðsluviðburðir á hverjum degi og alls konar skemmtanahöld og partí. Þá er ýmislegt hinsegin tónlistar- og leiklistarfólk sem leikur listir sínar með tónleikum og uppistandi. Á föstudaginn eru til dæmis 10 ólíkir viðburðir á dagskrá allan liðlangan daginn víða um bæinn.

Alltaf ný og ný mál

Á sama tíma og fjölbreytileikanum er fagnað og lífinu almennt, er vitaskuld langt í land á ýmsum sviðum. Því er tvinnuð saman gleðin og baráttan. Það er baráttugleði. „Við finnum meðbyr og gleði og það er frábært. En það er enn ærið verk að vinna og það koma alltaf upp ný mál og ný úrlausnarefni til að vinna úr.“

Sem dæmi um hinsegin málefni sem eru tiltölulega ný af nálinni nefnir Gunnlaugur aldrað hinsegin fólk, ung transbörn og aðgerðir á intersex börnum. Þessi mál eru vitaskuld ekki ný en fá nú pláss í umræðunni.

„Við þurfum að halda baráttunni gangandi og halda áfram með drastískar aðgerðir,“ segir Gunnlaugur, hress og stoltur. Opnunarhátíðin á morgun er klukkan 21 í Háskólabíói.

Meira um Hinsegin daga og dagskrána má lesa á heimasíðu hátíðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert