„Erfitt að ganga burt af fæðingardeildinni án hennar“

Gerður og Matthías.
Gerður og Matthías. Ljósmynd/Aðsend

„Við misstum litlu Líf okkar aðeins 5 daga gamla í lok janúar 2018. Þetta kom öllum mjög á óvart þar sem meðganga og fæðing gekk vel. Þessi vettvangur er langstærsta og mikilvægasta fjáröflunin sem snýr að starfi Gleym-mér-ei,“ segja Gerður Rún Ólafsdóttir og Matthías Örn Friðriksson. Gerður og Matthías taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu 18. ágúst í minningu dóttur sinnar.

Ljósmynd/Aðsend

Gerður og Matthías, sem tilheyra einnig hlaupahópnum Líf Matthíasdóttir, hlaupa fyrir styrktarfélagið Gleym-mér-ei, sem styður við foreldra sem missa börn sín á meðgöngu, í eða eftir fæðingu.

Gerður Rún hefur hlaupið nokkrum sinnum áður og hefur þá valið félag til að heita á eftir því hvað hefur staðið fjölskyldunni nærri hverju sinni. Má þar nefna Einhverfusamtökin, Neistann, Barnaspítala Hringsins, Krabbameinsfélagið og líknardeildina í Kópavogi. „Það átti því vel við að hlaupa fyrir félag sem studdi persónulega við bakið á okkur á erfiðum tíma,“ segja þau.

Hjálpaði þeim að fá þann tíma sem þau þurftu

Gerður og Matthías segja að Gleym-mér-ei hafi hjálpað þeim mikið og það hafi því ekki vafist fyrir þeim að ákveða til hvaða félags áheitin myndu renna til.

Gerður, Matthías og Líf.
Gerður, Matthías og Líf. Ljósmynd/Aðsend

„Félagið færði okkur minningarkassa sem gerði svo mikið fyrir okkur á erfiðum sorgartíma vegna fráfalls dóttur okkar. Gleym-mér-ei safnaði einnig og gaf Landspítalanum kælivöggu sem gerði okkur kleift að hafa Líf hjá okkur þann tíma sem við þurftum eftir andlát hennar en það er mikilvægur partur að okkur finnst í sorgarferli foreldra sem missa börn.

„Í lok júní á þessu ári færði Gleym-mér-ei Útfarastofu kirkjugarðanna kælivöggu sem gerir foreldrum sem missa barn í og eftir fæðingu auðveldara að halda kveðjustund heima hjá sér. Við vildum að það hefði verið komið í lok janúar og við hefðum getað tekið Líf með heim til að kveðja hana. Það var ólýsanlega erfitt að ganga burt af fæðingardeildinni án hennar. Eins getur það reynst foreldrum og aðstandendum dýrmætt síðar meir að eiga minningar um barnið.“

Ungbarnamissir ekki lengur bannorð

Að sögn Gerðar og Matthíasar hafa viðtökurnar verið mjög góðar og hafa margir sagt þeim frá sambærilegri reynslu af ungbarnamissi.

„Við erum mjög þakklát að fólk vilji tala um þetta. Við erum ánægð að þetta sé viðurkenndari sorg en á árum áður þegar fjölskyldur vissu jafnvel ekki hvar og með hverjum börnin þeirra voru jörðuð.

Ljósmynd/Aðsend

„Foreldrar fengu stundum ekki að sjá börnin, eiga jafnvel engar minningar um þau og svo var ekki talað um þau meir. Pör voru hvött til að eignast strax annað barn en því miður kemur aldrei neitt í staðinn fyrir barnið sem þú missir. Það á við um alla sem við missum í kringum okkur. Þetta er sorg sem fólk lærir að lifa með frekar en að komast nokkurn tímann yfir.“

Þá segjast þau vera þakklát fyrir tíðarandann í dag þar sem ungbarnamissir er ekki lengur bannorð sem fólk forðast að tala um.

„Fólk syrgir á ótrúlega mismunandi hátt og það er mikilvægt að leyfa fólki að gera það. Það er ekkert rétt og rangt í þessu.“

Hlaupahópurinn Líf Matthíasdóttir hefur nú safnað um 650.000 krónum sem er talsvert yfir upphaflegu markmiði hópsins sem var hálf milljón króna. Þar af hafa tæplega 240.000 krónum verið heitið á Gerði Rún.

„Við hvetjum allar langömmur, ömmur, mömmur og að sjálfsögðu fjölskyldur þeirra sem aldrei fengu að syrgja börnin sem þau misstu til að heita á okkur eða aðra sem hlaupa fyrir samtökin og styðja þannig Gleym-mér-ei sem beita sér til að hjálpa foreldrum sem lenda í þessari erfiðu lífsreynslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert