Leggja fram kæru á hendur Hval hf.

Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf.
Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er nokkuð síðan það kom í ljós að eitt af veiðiskipum Hvals hf. hafði skotið blendingshval. Í framhaldi af því þá litu menn að því hvort hægt væri að fella slíka blendinga undir það veiðileyfi sem Hvalur hf. hefur og undir lög og reglugerðir um hvalveiðar við Íslandsstrendur. Niðurstaðan var sú að það væri engin undanþága, það væri bara heimilt að veiða langreyðar og ekkert annað,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögfræðingur Jarðarvina. Jarðvinir lögðu í gær fram kæru til ríkissaksóknara á hendur Hval hf.

Í kærunni, sem er tvíþætt, er þess krafist að ríkissaksóknari taki þá háttsemi Hvals hf. sem greint er frá í kærunni til rannsóknar og beiti viðkomandi þvingunarráðstöfunum á grundvelli veiðileyfis Hvals og laga um hvalveiðar.

Blendingshvalurinn umdeildi sem veiddist fyrr í sumar og olli miklu …
Blendingshvalurinn umdeildi sem veiddist fyrr í sumar og olli miklu fjarðafoki. Ljósmynd/Hard To Port

„Svo er það ákæruvaldsins að ákvarða hvernig þeirri rannsókn yrði háttað og hvort hún leiði til þess að gefin verði út ákæra á hendur Hval hf. eða talsmönnum fyrirtækisins,“ segir Ragnar.

Kæran snýr annars vegar af umdeildri veiði Hvals hf. á blendingshval í júlí sem reyndist vera afkvæmi steypireyðar og langreyðar. „Við teljum að hvalur sem getinn er af öðrum tegundum geti ekki talist langreyður,“ segir Ragnar.

„Hitt atriðið er svo það að á sínum tíma var ákveðið að óheimilt væri á Íslandi að verka hval undir beru lofti heldur skyldi það vera undir þaki. Þá hefur það nú komið í ljós að Hvalur hafi ekki farið eftir þessum fyrirmælum reglugerðarinnar,“ bætir hann við. 

„Síðan kom það einnig í ljós að Kristján Þór Júlíusson ráðherra hafði breytt reglugerðinni Hval hf. í hag eftir að Hvalur hafði brotið gegn reglugerðinni um margra ára skeið. Við getum ekki séð með góðu móti að lögin sem reglugerðin er byggð á heimili slíka breytingu á reglugerðinni.“

Samkvæmt Ragnari er ekki heimilt að verka hval undir beru …
Samkvæmt Ragnari er ekki heimilt að verka hval undir beru lofti. mbl.is/Rax

Að sögn Ragnars var kæran send til saksóknara á miðjum degi í gær en eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá talsmanni Jarðarvina, Ole Anton Bieltvedt, er kæran framhald á þeirri baráttu sem samtökin hafa háð síðustu mánuði fyrir stöðvun langreyðaveiða.

Þá reiknar Ole með frekari atburðarás í málinu á næstunni en Ragnar telur að búast megi við frekari tíðindum af málinu á næstu dögum og vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert