Endurkröfum vegna lyfjaáhrifa fjölgar

Tjónum sem verða vegna lyfjaáhrifa ökumanna fjölgar milli ára.
Tjónum sem verða vegna lyfjaáhrifa ökumanna fjölgar milli ára. mbl.is/Ómar

Endurkröfur, sem vátryggingafélög eignast á hendur þeim sem valda tjóni í umferðinni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, voru færri árið 2017 en árið 2016. Endurkröfum vegna lyfjaáhrifa fjölgar mikið en flestar endurkröfur verða til vegna ölvunar tjónvalds. Þetta kemur fram í tilkynningu frá endurkröfunefnd.

Umferðarlög mæla svo fyrir að þegar vátryggingafélag greiðir bætur vegna tjóns af völdum ökutækja, eignist það endurkröfurétt á hendur þeim, sem olli tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Fjármálaráðherra skipar samkvæmt lögum þriggja manna nefnd sem metur hvort fallast skuli á endurkröfubeiðnir vátryggingafélaga. Sú nefnd hefur nú skilað samantekt fyrir árin 2016 og 2017.

Ölvun ætíð algengasta orsökin

Ölvun þess sem veldur tjóni er algengasta orsök endurkröfu og hefur alltaf verið. Endurkröfum vegna lyfjaáhrifa tjónvalds, einkum vegna ávana- og fíkniefna, hefur fjölgað mikið hlutfallslega síðastliðinn áratug. Á árinu 2008 var hlutfallið 15% en á árunum 2016 og 2017 var hlutfallið komið upp í 30%

Á árunum 2016 og 2017 var ölvun tjónvalds ástæða endurkröfu í 54-61% tilvika eða í 122 skipti. Næstalgengasta ástæða endurkröfu var voru lyfjaáhrif tjónvalds. Þá var nokkuð um ökuréttindaleysi tjónvalda. Þrjár endurkröfur stofnuðust á árunum 2016-2017 vegna beins ásetnings ökumanns til að valda tjóni.

Fjárhæðir

Á árinu 2016 bárust nefndinni 146 ný mál til úrskurðar og af þeim samþykkti nefndin endurkröfu að öllu leyti eða að hluta í 133 málum. Á árinu 2017 var heildarfjöldi nýrra mála 94 og samþykktar endurkröfur að öllu leyti eða að hluta til voru 82. Meðalfjöldi mála sem bárust endurkröfunefnd sl. 5 ár er 119 á ári.

Í tilkynningunni er tekið fram að þó að fjöldi mála á árinu 2017 sé undir meðaltali síðustu ára sé óvarlegt að draga af því ályktun þess efnis að málum sem falla undir endurkröfunefnd sé að fækka. Ástæðan er sú að mál sem eiga undir nefndina taka oft eitt til tvö ár að berast henni.

Endurkröfur á árinu 2016 námu samtals tæpum 82 milljónum króna og var hæsta einstaka endurkrafan 4,5 milljónir króna. Á árinu 2017 námu þær alls tæpum 67 milljónum króna og tvær hæstu endurkröfurnar námu 4,5 milljónum króna og sú þriðja hæsta náði tæpum 4,3 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert