23% notuðu kannabis í rafrettur

Mynd/Wikipedia

Alls höfðu 23% þeirra sem tóku þátt í könnun SÁÁ á Vogi notað kannabisefni í rafrettur. Könnunin var gerð í lok júlí en mánuði fyrr var þetta hlutfall 13%. Þetta kemur fram í frétt á vef SÁÁ.

Allt frá ársbyrjun 2000 hefur SÁÁ kannað verðlag á ólöglegum vímuefnum „á götunni“, meðal sjúklinga á Vogi.

Allir innritaðir sjúklingar á sjúkrahúsinu Vogi, sem hafa heilsu til, taka þátt í könnun þar sem spurt er hve margir þeirra hafa keypt slík efni og hvað þeir greiddu fyrir efnin. Meðaltalsverð er síðan reiknað.

Alls svöruðu 48 einstaklingar verðkönnun í lok júlí 2018. Í ljós kom að 67% aðspurðra höfðu keypt ólögleg vímuefni/lyfseðilsskyld lyf, eða 32 einstaklingar. Meðalaldur þeirra var rúm 29 ár en meðalaldur hinna sem ekki höfðu keypt slík efni var rúm 46 ár.

Tæp 60% höfðu notað örvandi vímuefni

Tæp 60% höfðu keypt örvandi vímuefni, eða 28 einstaklingar, þar af höfðu flestir keypt amfetamín og/eða kókaín (20). Helmingur aðspurðra, eða 24 einstaklingar, keyptu kannabisefni, gras (24) og/eða hass (12). Fimmtán keyptu sterk verkjalyf í flokki ópíóíða og 14 einstaklingar keyptu benzódíazepín-lyf, eða róandi lyf. Fjórir einstaklingar keyptu ofskynjunarlyf og önnur lyf ganga kaupum og sölum, eins og Lyrica og Gabapentin.

Í júlí höfðu 29% aðspurðra sprautað vímuefnum í æð, eða 14 manns. Þessir einstaklingar höfðu langflestir fengið nálar og sprautur í apótekum (86%) en 3 einstaklingar sögðust oftast hafa fengið nálar og sprautur hjá frú Ragnheiði. Aðrir möguleikar voru frá vinum og annars staðar. Flestir nefndu fleiri en einn stað, segir í frétt á vef SÁÁ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert