Fer maraþon á hjólabretti

Chris Koch fer maraþon á hjólabretti í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun.
Chris Koch fer maraþon á hjólabretti í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er sjötta maraþonið mitt. Ég er hérna til að hafa gaman og njóta andrúmsloftsins. Svo er þetta skemmtileg leið til að sjá borgina,“ segir Chris Koch, 39 ára ferðalangur og hlaupari. Chris tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun á hjólabretti, en hann fæddist bæði án handa og fóta.

Chris er frá Alberta í Kanda og átti hann þar, að eigin sögn, mjög hefðbundna æsku. Hann ólst upp á búgarði og hefur alla tíð unnið mikið við landbúnað. Þar fyrir utan er hann duglegur að stunda hinar ýmsu íþróttir.

„Ég reyni að vera eins virkur og ég get. Ég elska að fara á kajak og snjóbretti og ég er vanalega til í hvað sem er.“

Chris hefur farið fimm maraþon áður.
Chris hefur farið fimm maraþon áður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag notar Chris hjólabretti á nánast öllum sviðum daglegs lífs.  

„Þegar ég var yngri átti ég hjólabretti sem ég notaði til að komast leiðar minnar í skólanum. Svo var ég einu sinni í Flórída á námskeiði og keypti mér bretti upp á gamanið. Svo prófaði ég það og svona tíu mínútum seinna leit ég við og sá hvað ég hafði farið langt. Þá áttaði ég mig á því að ég kæmist lengra, hraðar og á skilvirkari hátt á brettinu en ég hafði nokkurn tímann komist með gervilimunum mínum. Ég hef bókstaflega ekki notað þá síðan þarna.“

Óttast ekki að gera mistök

„Ég segi fólki alltaf að ég óttast eftirsjá miklu meira en mistök. Ég tala stundum við fólk sem segist ekki vera hlauparar en hugsar svo með sér að það vildi að það væri það. Gerðu þetta bara. Ef þú klárar ekki maraþon í fyrstu tilraun, hverjum er ekki sama?

Chris Koch.
Chris Koch. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vil aldrei líta til baka og hugsa með mér að ég hefði átt að gera eitthvað sem ég gerði aldrei. Ég vil líta til baka og vita að ég gerði eins mikið og ég mögulega gat. Ég skemmti mér konunglega og kannski fór ekki allt alveg eins og ég vildi en ég reyndi alla vega og gerði mitt besta. Fólk er oft svo hrætt við að gera mistök. Ég hvet fólk til að gera eins mörg mistök og það getur. Þú verður svo miklu sterkari fyrir vikið.“

Vill láta hlutina ráðast

Í dag hélt Chris fyrirlestur í Laugardalshöll í tilefni hlaupsins á morgun, en hann byrjaði fyrir nokkrum árum að halda erindi og kynningar um ferðalög sín og ævintýri víðs vegar um heiminn.

„Þetta gerðist mjög náttúrulega. Fyrir um átta árum fór ég einn að ferðast um Evrópu í þrjá mánuði. Ég var frekar hreykinn af því. Fram að því hafði ég verið í búskapnum og mikið í íþróttum en hey, fullt af fólki gerir það. En eftir Evrópuferðina fannst mér ég hafa góðan stað til að byrja á.“

Chris er staddur hérlendis fram á mánudag og hyggst reyna að kynnast landinu eftir fremsta megni eftir að hann lýkur hlaupinu þó svo að hann hafi ekkert ákveðið.

„Ég er ekki vanur að plana mikið fyrir fram. Ég bara læt hlutina ráðast. Þannig endar maður kannski á stöðum sem eru miklu magnaðri en það sem þú hefðir ákveðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert