Hlaupandi fólk um allan bæ

Keppendur í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. 13.507 hlauparar voru búnir að …
Keppendur í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. 13.507 hlauparar voru búnir að skrá sig um þrjú í dag. mbl.is/Ófeigur

„Það verður hlaupandi fólk um allan bæ á morgun fram eftir degi,“ segir Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsinga- og samskiptastjóri hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, og kveður skráningu og áheitasöfnun fyrir Reykjavíkurmaraþonið, sem haldið er á morgun, ganga mjög vel.

13.507 hlauparar voru búnir að skrá sig þegar mbl.is ræddi við Önnu Lilju rétt fyrir þrjú í dag. „Þegar við lokuðum forskráningu þá vorum við 2% yfir miðað við sama tíma í fyrra,“ segir hún. Þó að netskráningu sé lokið þá getur fólk skráð sig í hlaupið niðri í Laugardalshöll til klukkan sjö í kvöld.

Meiri vöxtur í lengri vegalengdum

Langflestir eru skráðir í 10 km hlaupið, líkt og verið hefur undanfarin ár, og voru um 6.600 manns búnir að skrá sig í þá vegalengd. Rúmlega 1.500 voru skráðir í maraþon og tæplega 2.900 í hálfmaraþon.

Anna Lilja segir meiri vöxt í lengri vegalengdunum en þeim styttri og þeim fari fjölgandi sem veigra ekki fyrir sér að fara hálft og heilt maraþon. Hún bætir við að það sé líka alltaf hægt að ganga.

Sömuleiðis sé mjög góð skráning í skemmtiskokkið, en sá fjöldi kemur ekki alltaf í ljós fyrr en á hlaupadaginn, þar sem margir ákveða með skömmum fyrirvara að skella sér í skemmtiskokkið.

Áheitasöfnunin lofar ekki síður góðu. „Áheitin voru komin upp í rúmlega 106 milljónir um þrjú í dag og er það 23% hærri upphæð en á sama tíma í fyrra,“ segir Anna Lilja. Það ár söfnuðust 118,5 milljónir.

Haldið er áfram að taka við áheitum til miðnættis á mánudag og því gæti met síðasta árs verið slegið. „Sumir bíða eftir að sjá hver tíminn hjá hlaupurunum er,“ segir hún og bætir við að mörg dæmi séu um að bætt sé við áheitin ef hlaupararnir standast áskoranir sem þeim eru settar.  

Alltaf hægt að toppa sig

„Við erum mjög ánægð með þetta,“ segir Anna Lilja um áheitasöfnunina í ár. „Stundum veltir maður fyrir sér hvort að það verði hægt að safna svona miklu, en já það lítur út fyrir að það sé alltaf hægt að toppa sig sem er náttúrulega mjög skemmtilegt.“

Hlauparar í maraþoni og hálfmaraþoni leggja af stað klukkan 8.40 í fyrramálið og 9.35 verður ræst út í 10 km hlaup. „Svo er líf og fjör til að verða fjögur í styttri vegalengdum og síðan taka sumir sér líka góðan tíma í að klára maraþonið,“ segir hún og kveður hlaupandi fólk verða á ferðinni um allan bæ á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert