Landið er á milli tveggja lægða

Það viðrar væntanlega vel fyrir flugeldasýninguna annað kvöld.
Það viðrar væntanlega vel fyrir flugeldasýninguna annað kvöld. mbl.is/Freyja Gylfa

Landið er milli tveggja lægða, annarrar hægfara norðaustur af Langanesi, en hinnar suðvestur í hafi á fleygiferð til austurs og veldur því að fer að rigna syðra í dag, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands í morgun.

Á morgun lægir smám saman og léttir til en gengur á með norðvestan kalda og skúrum norðaustan til fram á kvöld. Fremur svalt á norðanverðu landinu, en hlýtt syðra. Á sunnudag snýst síðan í suðvestlæga átt með vætu á sunnan- og vestanverðu landinu og verður líklega sama uppi á teningnum í byrjun næstu viku,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðan 5-10 m/s og súld og dálítil rigning, en skýjað og þurrt að kalla sunnan heiða. Gengur í austan og norðaustan 8-15 eftir hádegi, hvassast við SA-ströndina, en hægari NA-lands. Fer að rigna á S-verðu landinu og dálítil væta öðru hvoru fyrir norðan. Norðlægari og birtir til SV-lands í kvöld. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast S-til.
Lægir smám saman á morgun og léttir til S- og V-lands, en norðvestan 8-13 og skúrir NA-til. Hiti allt að 17 stigum syðst.

Á laugardag:
Norðvestan 10-15 m/s og rigning NA-til fram eftir degi, en annars 5-10 og léttskýjað. Hiti frá 6 stigum á NA-landi, upp í 17 stig syðst. Lægir víða um kvöldið og kólnar. 

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Suðvestlæg átt, víða 5-10 m/s og lítils háttar væta, en hægari og þurrt að kalla A-til. Hiti yfirleitt 10 til 15 stig að deginum. 

Á miðvikudag:
Gengur líklega í suðaustan- og austankalda með rigningu, en lengst af þurrt fyrir norðan. Milt veður. 

Á fimmtudag:
Útlit fyrir norðvestlæga átt með vætusömu og svölu veðri fyrir norðan, en bjartviðri og milt syðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert