Vannærðir kettlingar í pappakassa

Kattholt er eina athvarfið fyrir heimilislausa ketti á Íslandi. Mynd …
Kattholt er eina athvarfið fyrir heimilislausa ketti á Íslandi. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag kom dýravinur með læðu og fimm kettlinga hennar í Kattholt, en kettlingarnir höfðu fundist í pappakassa við ruslatunnur í Reykjanesbæ og læðan þar í grenndinni. Frá þessu er greint á vef Kattholts og tekið fram að dýrin hafi verið vannærð og sársvöng.

Þau tóku svo hraustlega til matar síns við komuna í kattaathvarfið. Kettlingarnir eru sagðir smáir miðað við aldur og þurfa þeir á aukapela að halda til að byrja með.

Einn kettlinganna sem fundust í Reykjanesbæ. Þeir eru litlir miðað …
Einn kettlinganna sem fundust í Reykjanesbæ. Þeir eru litlir miðað við aldur og þurfa aukanæringu fyrst um sinn. Ljósmynd/Kattholt

Á vef Kattholts segir að þetta sé langt því frá eina raunasagan sem starfsmenn athvarfsins geti sagt. Af nógu sé að taka og starfsfólk og sjálfboðaliðar í athvarfinu eru sögð leggja alla sína krafta í að hugsa um dýr sem eru yfirgefin af eigendum sínum, auk þess sem sjaldan ef nokkurn tíma í sögu Kattholts hafi fleiri kettir komið inn, sem fólk í neyð geti ekki annast.

Kattaathvarfið er fullt sem stendur og þrátt fyrir að 5-6 kettir fari til nýrra heimila á hverjum virkum degi bætist sami fjöldi, eða jafnvel enn fleiri, við á móti. Starfsfólk Kattholts hvetur fólk til að sýna ábyrgð í kattahaldi.

„Það þarf að láta taka kettina úr sambandi eða gelda og koma þannig í veg fyrir offjölgun. Nauðsynlegt er líka að merkja kisur og skrá og mörgu öðru þarf að gera sér grein fyrir í sambandi við að halda gæludýr áður en litli sæti kettlingurinn er tekinn á heimilið. Kettir eru lifandi verur, EKKI leikföng!,“ segir á vef athvarfsins og það sagt þyngra en tárum taki að horfa upp á það hvernig komið er fram við saklaus dýr.

„Að sýna ábyrgð í verki mundi koma í veg fyrir miklar þjáningar allt of margra saklausra dýra,“ segir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert