Góðar líkur á bindandi niðurstöðu

Horft yfir Selfoss úr lofti. Íbúakosningarnar í Árborg verða bindandi …
Horft yfir Selfoss úr lofti. Íbúakosningarnar í Árborg verða bindandi ef kosningaþátttaka er meiri en 29%. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúakosning um nýjan miðbæ á Selfossi fer vel af stað í sveitarfélaginu Árborg samkvæmt formanni yfirkjörstjórnar, Ingimundi Sigurmundssyni. Kosið er um nýtt deiliskipulag sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti í febrúar á þessu ári. Í því felst meðal annars bygging skyr- og mjólkursafns sem yrði alþjólegt heimili skyrsins á Selfossi.

Samkvæmt Ingimundi hefur kjörsókn verið góð eftir að kjörstaðir opnuðu klukkan níu í morgun. „Hún hefur verið mjög góð. Heldur betri en í síðustu sveitarstjórnarkosningum.“

For­seti bæj­ar­stjórn­ar í Árborg hefur sagt að kosn­ing­arn­ar séu fyrstu „al­vöru­íbúa­kosn­ing­arn­ar“ hér á landi þar sem niðurstaðan verður bind­andi fari þátt­töku­hlut­fallið yfir 29 pró­sent en íbúa­kosn­ing­ar eru al­mennt á Íslandi, sam­kvæmt sveit­ar­stjórn­ar­lög­um, aðeins ráðgef­andi.

Kannski rólegra eftir hádegi

„Miðað við þessa fyrstu tvo tíma eru góðar líkur á að það náist. Mjög góðar líkur. 29% er almennt séð miklu minni kjörsókn en er í almennum sveitastjórnarkosningum. Miðað við þessa sókn sem er núna ætti það alveg að nást upp úr hádegi,“ segir Ingimundur.

„Maður getur samt aldrei sagt fyrir um það hvernig það verður. Kannski eru margir að drífa sig snemma af stað út af öllum þessum viðburðum sem eru í Reykjavík í dag. Kannski verður þetta rólegra eftir hádegi,“ segir Ingimundur.

Kjörstaðir loka klukkan sex og hefst talning strax í kjölfarið. Rúmlega 6.600 íbúar eru á kjörskrá og þurfa því tæplega 2.000 íbúar að greiða atkvæði eigi niðurstaðan að verða bindandi.

Eftir að kjörstöðum lokar hefjum við talningu og birtum svo niðurstöðuna í kvöld þegar henni er lokið,“ segir Ingimundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert