Fleiri kisur frá fólki í íbúðavanda

Kattholt er eina athvarfið fyrir heimilislausa ketti á Íslandi.
Kattholt er eina athvarfið fyrir heimilislausa ketti á Íslandi. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Það hefur alltaf verið viðloðandi við kattahald að það séu einhverjir óábyrgir aðilar inn á milli. Við viljum ekki að það séu neinir kettlingar úti í kössum. Þessi grey eru bara heppin að vera á lífi. Þeir voru svo svakalega vannærðir og litlir. Þeir koma ekki úr góðum aðstæðum, það er alveg ljóst. Mamma þeirra var líka mjög vannærð,“ segir Halldóra Snorradóttir, forstöðukona Kattholts.

Í gær kom dýra­vin­ur með læðu og fimm kett­linga henn­ar í Katt­holt, en kett­ling­arn­ir höfðu fund­ist í pappa­kassa við rusla­tunn­ur í Reykja­nes­bæ og læðan þar í grennd­inni.

Halldóra segir það ekki vera nýtt vandamál að fólk vilji losna við gæludýr sín.

Einn kettlinganna sem fannst í Reykjanesbæ. Þeir eru litlir miðað …
Einn kettlinganna sem fannst í Reykjanesbæ. Þeir eru litlir miðað við aldur og þurfa aukanæringu fyrst um sinn. Ljósmynd/Kattholt

„Það sem hefur helst færst í aukana er að fólk er sumt í miklum íbúðavanda. Algengasta ástæðan fyrir því að fólk hefur samband við okkur er af því að það er að missa húsnæði og við reynum þá að hjálpa til. Svo er þetta ofnæmi alltaf að koma upp,“ segir Halldóra. Fullt er í athvarfinu sem stendur og nýir kettir koma sífellt inn í stað þeirra sem finna heimili.

Mikilvægt að fólk sýni ábyrgð

„Svo koma alltaf reglulega til okkar kettir sem eru að finnast yfirgefnir úti. Þessir kettlingar sem fundust þarna í kassanum eru alls ekkert einsdæmi. Það sem vantar er að fólk taki ábyrgð á kisunum sínum. Taki þá úr sambandi og láti merkja þá og sé bara ekki að fá sér kött nema það sé 100% tilbúið í ábyrgðina sem fylgir,“ segir Halldóra.

„Það er of mikið um það að fólk vilji fá sér dýr en geri sér ekki grein fyrir skuldbindingunni. Er kannski að hugsa þetta bara til styttri tíma og fyrir börnin og svona. Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að vera kattareigandi.“

Halldóra segir þó að ákveðin vitundarvakning hafi orðið á síðustu árum og að margra ára barátta Kattholts fyrir aukinni ábyrgð kattareiganda sé greinilega farin að skila sér. Sífellt fleiri eigendur láti merkja og gelda ketti sína.

„Við erum líka ofboðslega ánægð hvað það gengur vel að finna kisunum góð heimili. Það eru mjög margir sem hafa áhuga á að taka að sér kött hjá okkur. Það er mjög gott streymi og margar kisur að fara á heimili á hverjum degi. Sem betur fer. Það væri óskandi ef það væru fleiri svona ábyrgir sem hugsa vel um dýrin sín.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert