Segir mótmæli SA gegn eftirliti tvískinnung

Eftirlitsmyndavélar eru orðnar víða.
Eftirlitsmyndavélar eru orðnar víða. mbl.is/Eggert

„Mér finnst ákveðinn tvískinnungur og skjóta skökku við að fulltrúi SA hafi miklar áhyggjur af þessu,“ segir Halldór Oddsson, lögmaður hjá ASÍ, um mótmæli Samtaka atvinnulífsins (SA) gegn eftirlitsmyndavélum um borð í fiskiskipum. Eftirlitsmenning hafi þegar átt sér stað í skjóli SA.

„Nú er ég ekki að mæla fyrir ágæti þess að hér verði eitthvert eftirlitssamfélag, en við sem vinnum fyrir verkalýðshreyfinguna og starfsfólk á mjög mörgum vinnustöðum getur tekið undir það að á undanförnum árum hefur verið gríðarleg aukning í eftirliti atvinnuveitenda með sínu starfsfólki,“ segir Halldór og kveður um algjöra sprengingu að ræða.

„Þetta er allt frá því að krefja starfsfólk um lífssýni, þvagprufur og annað slíkt, yfir í þessa myndavélaaukningu. Þannig að mér finnst ótrúverðugt núna að þetta sé orðið eitthvert prinsipp fyrir SA að standa fyrir, miðað við hvernig málin hafa verið hjá flestum af þeirra félagsmönnum og hvernig þeir hafa tekið til varna um þau mál.“

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA, sagði í grein í Fréttablaðinu á miðvikudag að blað yrði brotið „í sögu eftirlitsiðnaðarins á Íslandi“ verði frumvarp um eftirlitsmyndavélar í fiskiskipum að lögum. Næðu áformin fram að ganga kynnu Íslendingar, innan fárra ára, að búa „við eftirlitsþjóðfélag af áður óþekktri gerð“.

Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ, segir tvískinnungs gæta hjá SA í …
Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ, segir tvískinnungs gæta hjá SA í mótmælum samtakanna gegn eftirlitsmyndavélum um borð í fiskiskipum. Mynd/ASÍ

Notað til að hanka starfsfólk

Halldór bendir á að fjölmörg dæmi séu nú þegar um að myndavélaeftirlit sé notað hér á landi til að fylgjast með vinnuskilum starfsfólks, þrátt fyrir að slíkt sé bannað. Myndavélar sem beinast að peningakössum í verslunum séu bara eitt dæmi af mörgum. „Þetta er fín lína, myndavél sem er beint að búðarkassa en er líka beint að starfsmanninum,“ segir hann. Eins séu myndavélar víða í anddyri fyrirtækja og þó að opinbera skýringin sé að þarna sé verið að fylgjast með öryggi þá sé starfsfólkið líka í mynd. „Það eru dæmi um að þetta sé notað til að hanka starfsfólk.“

Þá séu upplýsingar um netnotkun starfsfólks og ökusíritar í bifreiðum annað dæmi um eftirlit atvinnurekenda með starfsmönnum. „Yfirlýsta skýringin er sú að verið sé að fylgjast með nýtingu bílsins og annað, en svo þegar á reynir höfum við líka dæmi um að þetta sé notað til að fylgjast með starfsfólki.“

Halldór segir vímuefnapróf vissulega geta átt rétt á sér, en allt sé þetta spurning um meðalhóf og ekki sé hægt að leggja að jöfnu hættuleg störf í stóriðju og sjómennsku og vinnu á veitingahúsum eða verkamannastörf. „Við erum samt með stóra aðila sem áskilja sér slíkt í sínum ráðningarsamningum, til að mynda hjá starfsfólki á veitingahúsum.“

Að sínu mati sé þetta orðið ansi stórt inngrip, enda hafi ASÍ vakið máls á þessu áður. „Þetta hefur allt saman átt sér stað í skjóli SA án þess að þeir hafi opnað á sér munninn. Svo kemur allt í einu þessi prinsippslagur núna. Þannig að ég myndi hvetja þá til að beina þeim skilaboðum til sinna félagsmanna að hætta þessu eftirliti með starfsfólkinu sínu.“    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert