Vilja að Kristín Soffía biðjist afsökunar

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og fulltrúi flokksins í …
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og fulltrúi flokksins í skipulags- og samgönguráði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar minnihlutans í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur vilja að Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, biðjist formlegrar afsökunar og dragi til baka ummæli sín um að trúnaður hafi verið brotinn á síðasta fundi ráðsins eftir að minnihlutinn gekk af fundinum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins lögðu fram á fundi ráðsins núna á föstudaginn lögfræðiálit lögfræðistofunnar BBA Legal um að fyrri fundur hafi ekki verið boðaður með réttum hætti og þar af leiðandi væri ekki hægt að taka bindandi ákvarðanir á honum.

Vegna þess hvernig boðun á fundinn var gengu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins af fundinum, en Kristín sagði í kjölfarið að fundurinn hafi verið fullkomlega löglegur og að brugðist hafi verið við seinkun á útsendingu gagna. Hins vegar hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tjáð sig við fjölmiðla áður en fundinum var lokið þótt trúnaður ætti að ríkja þangað til að fundi loknum.

„Til ham­ingju Reyk­vík­ing­ar, þau brutu trúnað, skrópuðu í vinn­unni og misstu af öll­um kynn­ing­um til þess eins að fá þessa fínu mynd af sér,“ sagði Kristín.

Minnihlutinn telur hins vegar að þau hafi ekki brotið trúnað, enda ekki setið fundinn eins og komi fram í fundargerð. Það geti því ekki verið trúnaður um fund sem þau sitji ekki.

Kristín Soffía Jónsdóttir.
Kristín Soffía Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert