Kraftur skýstrókanna „með ólíkindum“

Eyðileggingin var gríðarlega mikil.
Eyðileggingin var gríðarlega mikil. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

„Þetta er það sem við þekkjum og heyrum af í Bandaríkjunum og víðar í heiminum en við höfum ekki séð þetta hingað til í þeirri mynd. Ég man ekki til þess að það hafi orðið tjón hér á landi vegna þessa,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um skýstrókana sem gengu yfir bæinn Norðurhjáleigu í Álftaveri við Kúðafljót síðdegis í gær, í samtali við mbl.is.

Þrír skýstrókar fóru yfir Norðurhjáleigu með þeim afleiðingum af stór jeppi með kerru þeyttist úr í skurð, þakplötur fuku fleiri hundruð metra og girðingar lögðust á hliðina. Húsráðendur voru sem betur fer að heiman er veðrið gekk yfir. „Aðkoman er við komum heim í dag var ólýsanleg, það var allt í rúst,“ sagði Sæunn Káradóttir, bóndi í Norðurhjáleigu, í samtali við mbl.is í gær.

„Mér finnst alveg með ólíkindum að skýstrókurinn hafi tekið með sér bíl og fleygt honum út í skurð. Hann hlýtur að hafa verið mjög öflugur sem kemur manni ansi mikið á óvart að það skuli vera svona kraftar í þessu hér á landi,“ segir Einar og bætir við:

„Það þarf mikla hitun yfirborðsins saman við háloftakulda. Sólin nær yfirleitt ekki þeirri hæð til að hita yfirborðið nægilega mikið til að búa til almennilega skýstróka,“ útskýrir hann.

Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð.
Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

Ekki algengt á Íslandi

Einar segir að skýstrókar eins og mynduðust í gær séu ekki algengir á Íslandi vegna veðurfarsins hér á landi. Oft megi þó sjá rana neðan úr skýjum og rykstróka hér á landi en það megi ekki rugla þeim saman við skýstróka enda megi lýsa þeim meira eins og sogi í ryksugu frekar en hefðbundnum vindi.

Skýstrókurinn sást úr mikilli fjarlægð.
Skýstrókurinn sást úr mikilli fjarlægð. Ljósmynd/Jón Hrafn Karlsson

„Það er ekki óalgengt að sjá rana neðan úr skýjum. Það eru mörg dæmi um það en við köllum það eiginlega ekki skýstróka. Það má ekki blanda þessu saman við rykstróka þar sem við sjáum ryk þyrla yfir. Það er annað,“ útskýrir hann.

„Það er afar fátítt að svona skýstrókar nái til jarðar og þannig niður að þeir valdi tjóni. Svona fyrirbæri hafa valdið tjóni á Bretlandseyjum og þau eru einnig þekkt í Kína. En það er ákveðinn þröskuldur hversu norðarlega svona fyrirbæri getur myndast vegna þess að sólin er ekki nógu hátt á lofti og hún hefur ekki þann mátt til þess að hita yfirborðið,“ bætir Einar við.

Einar vill ekki ganga svo langt að fullyrða að myndun skýstrókanna í gær tengist loftlagsbreytingum. „Þetta getur hæglega verið einskær tilviljun og ræðst bara af stöðu veðurkerfanna,“ segir hann að lokum.

Þakplötur fuku mörg hundruð metra.
Þakplötur fuku mörg hundruð metra. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir
Þök fuku af sjö húsum er skýstrókarnir fóru yfir.
Þök fuku af sjö húsum er skýstrókarnir fóru yfir. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert