Í vímu á 132 km hraða

Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði för ökumanns í liðinni viku en viðkomandi var undir áhrifum og ók á 132 hraða á Suðurlandsvegi. Maðurinn var ekki með ökuréttindi þar sem hann hafði verið sviptur þeim.

54 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Í ár hafa 1.062 ökumenn verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu og eru það nokkuð færri en í fyrra þegar 2.200 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt allt það ár og 2.185 allt árið þar á undan.

Björgunarsveitarmenn voru kallaðir út til leitar við Hvalnes austan Hafnar 22. ágúst eftir að ferðamaður taldi sig hafa heyrt kallað á hjálp þar. Leitinni var hætt þegar hún bar ekki árangur og eftirgrennslan um hvort og hver gæti annar hafa verið þarna á ferðinni gaf ekki tilefni til að ætla að þarna væri einhver í vandræðum á svæðinu, að því er segir í dagbók lögreglu.

Aðfaranótt föstudags slösuðust tveir menn þegar þeir voru að vinna að lagfæringu heitavatnslagnar í tengibrunni á Selfossi. Mennirnir leituðu sér sjálfir aðstoðar á sjúkrahúsi en lögreglan hefur ekki upplýsingar um meiðsl þeirra.

Fjórtán ára drengur slasaðist í vikunni þegar hann féll á mótorkrosshjóli í braut í Bolaöldu.  Hann var vel búinn öryggisbúnaði og meiðsl ekki talin alvarleg við skoðun á vettvangi.

Rúða var brotin í gröfu á gámasvæði á Höfn fyrr í mánuðinum og leikur grunur á að börn hafi verið þar að verki. Þá voru brotnar rúður í útihúsi við Hveragerði og stóð eigandinn unga drengi að verki. Það mál er unnið í samstarfi við barnaverndaryfirvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert